Sjálfboðaliðaáætlunin European Solidarity Corps hefur upp á heilmargt að bjóða fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára. Annars vegar er það með sjálfboðaliðaáætlun sem ungir Íslendingar geta sótt um að vera þátttakendur í og einnig geta íslensk samtök, fyrirtæki og stofnanir sótt um að fá sjálfboðaliða til sín. Það væru þá evrópsk ungmenni sem kæmu og störfuðu hjá þeim sem sjálfboðaliðar að afmörkum verkefnum. Umsóknarferlið er þríþætt og er fyrsta skrefið að sækja um gæðavottun áður en sótt er um styrki fyrir verkefnum. Gæðavottunin er gerð til að tryggja að verið sé að skapa jöfn tækifæri og vinna gegn mismunun, að verið sé að bjóða upp á gæðaverkefni við hæfi og til að tryggja að sjálfboðaliðarnir muni búa við öruggan og mannsæmandi aðbúnað. Þá er einnig verið að passa upp á að ekki sé verið að ganga í launuð störf og verkefni sjálfboðaliðanna séu ekki hagnaðardrifin. Umsóknarfrestur fyrir verkefni er þrisvar á ári og sá næsti er 4. október.
ESC er hins vegar með styrki til samfélagsverkefna sem öll ungmenni á aldrinum 18-30 ára geta sótt um. Það geta verið afar fjölbreytt verkefni sem geta tengst fólki á öllum aldri. Þau geta lútið að hlaðvarpsgerð, fræðslu, viðburði og í raun hvern þann miðil sem ungmennin telja henta samfélagsverkefni sínu sem best. Verkefnunum er ætlað að svara samfélagslegum þörfum og geta þau m.a. snúist um inngildingu þar sem hennar er þörf og lausnir við tilteknum vanda.
Fleiri verkefnaflokkar eru starfræktir á sviði æskulýðsmála innan Evrópu, eins og t.d. Erasmus+ sem margir þekkja til og svo inngildingarátakið DiscoverEU. Hér á Íslandi er það Rannís sem hefur yfirumsjón með sjóðunum og er starfsfólk þar boðið og búið til að veita upplýsingar og ráðgjöf. Við hjá Vestfjarðastofu veitum líka glöð ráðgjöf og aðstoð við gerð umsókna.
Á morgun 7. september býður Rannís uppá vefstofu undir heitinu Evrópa unga fólksins þar sem fjallað verður um alla verkefnaflokka á sviði æskulýðsmála og eru áhugasamir hvattir til að skrá sig hér.