Fara í efni

Fjölbreytt dagskrá á Skjaldborg08

Fréttir

Hvítasunnuhelgina 9.-12. maí verður Skjaldborg – hátíð íslenkra heimildamynda haldin í annað sinn á Patreksfirði. Auk þess að frumsýna nýjar íslenskar heimildamyndir er hátíðinni ætlað að vera vettvangur fyrir kvikmyndagerðarfólk og áhugamenn um heimildamyndir til að hittast og skiptast á skoðunum. Í lok hátíðarinnar verður besta heimildamyndin á Skjaldborg 2008 valin af áhorfendum.


Dagskrá Skjaldborgar08 hefur verið læst enda komast ekki fleiri myndir fyrir á sýningardögum hátíðarinnar. Á Skjaldborg í ár verður sýnd 31 íslensk heimildamynd ásamt fjórum myndum Albert Maysles. Það vekur athygli hversu margar myndanna í þessu glæsilega úrvali tengjast tónlist. Þar má nefna tvær myndir um Mínus, nýja mynd um Sigur Rós, verk í vinnslu um Sigríði Níelsdóttur, myndir um Jórunni Viðar og DJ Platurn ásamt költklassík um Rolling Stones.

Í öðrum myndum hátíðarinnar er farið vítt og breitt um heiminn og koma margar áhugaverðar persónur við sögu. Má þar nefna karlstripparann Charlie, kverúlanta í heita pottinum, götubörn í Rússlandi, kaupmanninn á horninu, tölvuleikjafíkla og þónokkra hressa Vestfirðinga. Stysta mynd hátíðarinnar er þrjár mínútur en sú lengsta er um 100 mínútur.

Frá þessu segir á vef hátíðarinnar á vefslóðinni www.skjaldborgfilmfest.com.