Fara í efni

Fjöllistavika Hafstrauma heppnaðist vel

Fréttir

Fjöllistaviku Hafstrauma lauk á sjómannadag með stórtónleikum og mikilli grillveislu við höfnina á Patreksfirði. Tónleikarnir voru einkar veglegir í ár en á þeim komu fram meðal annars Hraun, Mysterious Marta og Sverrir Bergman. Hátíðin var haldin með öðru sniði en síðastliðin tvö ár en í þetta sinn teygði hátíðin sig yfir fimm daga og í nærliggjandi sveitarfélög. Að sögn Atla Keranssonar, eins skipuleggjanda hátíðarinnar, gekk hátíðin ljómandi vel fyrir sig og hann var ekki í vafa um að allir hefðu verið sáttir að henni lokinni.

„Mikið af fólki lagði leið sína í bæinn, mikið um brottflutta en einnig fólk sem hafði heyrt af hátíðinni og vildi taka þátt. Atburðirnir voru vel sóttir þannig að ekki er hægt að kvarta yfir neinu hvað það varðar. Grillveislan var meira að segja svo vel sótt að allur maturinn kláraðist.“ Væntanlega hafa eigendur gistihúsa í byggðinni ekki kvartað því að sögn Atla voru öll rúm bókuð. Í ljósi þess hve vel heppnaðist í ár var sagði Atli að það væri alveg á hreinu að hátíðin yrði haldin aftur að ári liðnu.

Atli vildi að lokum koma þökkum til allra þeirra sem komu að hátíðinni með einum eða öðrum hætti, listamanna sem og aðstandenda sem unnu margvísleg störf í þágu hennar.

Frétt afrituð af fréttavefnum www.patreksfjordur.is.