Veturnætur
Menningarhátíðin Veturnætur hefst á Ísafirði á fimmtudag og stendur fram á sunnudag. Fjölbreytt dagskrá verður alla dagana og að sjálfsögðu tekur Kómedía þátt í gleðinni. Dagskrá hátíðarinnar er hér http://www.isafjordur.is/vn/
Act off leiklistarkeppni á Vagninum á Flateyri
Leikhússport hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár og því hefur verið ákveðið að blása til Act - off einræðukeppni með ghettósniði. Tvo lið skipuð þremur áhugaleikurum keppist við að útleika mótherjann með mögnuðum einræðum og öflgum stuðningi meðleikaranna. Kómedíuleikarinn er formaður dómnefndar í þessari nýstárlegu keppni sem er haldin á Veturnóttum.
Fyrsti Einleikni leiklesturinn er á sunnudag í Tjöruhúsinu
Á sunnudaginn hefst nýr dagskráliður hjá Kómedíuleikhúsinu en í vetur mun leikhúsið bjóða uppá Einleikna leiklestra þar sem fluttir verða kunnir og ókunnir einleikir. Leiklesturinn verður í Tjöruhúsinu í Neðsta kaupstað á Ísafirði, þar sem Kómedía hefur fengið inni í vetur, og hefst kl.14 á sunnudag 26. október. Fluttur verður einleikurinn Knall eftir Jökul Jakobsson. Flytjandi er Árni Ingason en hann hefur áður leikið í tveimur einleikjum hér á Ísafirði. Einnig mun Kómedíuleikarinn flytja erindi um skáldið en í ár eru 75 ár frá fæðingu Jökuls Jakobssonar sem er án efa eitt mesta leikskáld Íslandssögunnar. Aðgangur er ókeypis en boðið verður uppá kaffi og pönsur á Kómísku verði.
Gísli Súrsson í Gamla bakaríinu á Ísafirði
Á morgun, þriðjudag 21. október, opnar Kómedíufrúin sýninguna Gísla saga Súrssonar í myndum í Gamla bakaríinu á Ísafirði. Hér er á ferðinni mjög athygliverð sýning þar sem frúin vinnur með fornsöguna góðu á skemmtilegan máta. Teknar eru fyrir fleygar setningar úr sögunni og þær túlkaðar í mynd en einsog þið vitið þá er sagan uppfull af góðum slögurum s.s. Oft stendur illt af kvennahjali og Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar. Þetta er sölusýning og mun standa út vikunna og er um leið liður í menningarhátíðinni Veturnætur. Rétt er að geta þess að þessi sýning var sýnd samtímis á þremur sögustöðum Gísla Súra í sumar.
Sýningar á einleiknum Pétur og Einar hefjast að nýju um næstu helgi.
Einleikurinn Pétur og Einar var sýndur við miklar vinsældir í sumar í Einarshúsi í Bolungarvík. Sýningar hefjast að nýju í næstu viku og er þegar búið að opna miðasöluna hjá Vertinum í Víkinni. Að vanda verða sýningar á fimmtudögum og verður fyrsta sýning haustsins á fimmtudag 30. október kl.20. Miðapantarnir ragna@einarshusid.is Sýningar halda svo áfram í nóvember. Einnig er rétt að geta þess að einnig verður hægt að skella sér á Jólahlaðborð í Einarshúsi með þeim Pétri og Einari, sú sýning verður laugardaginn 29. nóvember og er þegar byrjað að selja á þá sýningu, fyrstur pantar fyrstur fær.
Vestfirskur húslestur hefst að nýju í næstu viku
Kómedíuleikhúsið og Bókasafnið á Ísafirði byrja að nýju með Vestfirskan húslestur í næstu viku en húslestrarnir voru haldnir mánaðarlega síðasta vetur og hlutu afbraðgsgóðar viðtökur. Húslestrarnir eru alltaf á laugardögum og verður fyrsti húslestur þessa veturs því laugardaginn 1. nóvember og hefst kl.14. Að þessu sinni er það afmælisbarn ársins, Steinn Steinarr, sem er til umfjöllunnar. Elfar Logi Hannesson les úr verkum Steins og Jóna Símonía Bjarnadóttir segir frá skáldinu. Aðgangur að Vestfirskum húslestri er ókeypis einsog verið hefur frá upphafi.
Gísli Súrsson til þýskalands - öðru sinni
Kómedíuleikhúsinu hefur verið boðið að fara með Gísla Súrsson til Karlsruhe í þýskalandi. Þar verður haldin vegleg ferðasýning er nefnist Horizont sem fer fram dagana 14. - 16. nóvember og verður Ísland í aðalhlutverki. Kómedíuleikhúsið mun sýna brot úr sýningunni nokkrum sinnum auk þess sem fornkappinn mun vera á vappi um svæðið og vonandi ná að heilla gesti það mikið að þeir streymi til Vestfjarða á komandi ferðasumri. Rétt er að geta þess að nú er verið að þýða Gísla Súrsson á þýsku og er Kómedíuleikarinn er að láta sig dreyma um það að leika á þýsku í næsta mánuði. En til gamans má geta þess að kappinn hefur aldrei lært þýsku og verður því útkoman væntanlega mjög kómísk.