Fara í efni

Fundað um vetrarferðaþjónustu á Vestfjarðaleiðinni

Fréttir

Í gær funduðu ferðaþjónar á Vestfjarðaleiðinni um lengingu ferðatímabilsins á Vestfjörðum með áherslu á vetrarferðaþjónustu. Fundurinn var vel sóttur, en yfir tuttugu ferðaþjónustuaðilar frá Vestfjörðum og úr Dölum mættu til leiks í Flókalund þar sem fundurinn fór fram.

Markmið fundarins var að hvetja ferðaþjóna til að þróa ferðir og ferðapakka að vetrarlagi, til að auka aðdráttarafl Vestfjarða utan hefðbundins ferðamannatímabils og einfalda gestum að sækja svæðið heim á þeim tíma. Helstu vaxtamöguleikar svæðisins liggja í dreifingu ferðafólks yfir lengra tímabil og til að svo megi verða er stefnt að því að efla kynningu á vöruframboði á Vestfjörðum yfir veturinn.

Eftir að nýjar vörur hafa verið þróaðar verður það hlutverk markaðsstofunnar að koma vörunum á framfæri í gegnum sínar söluleiðir og tengslanet, líkt og á vefsvæði sínu, á ferðasýningum og vinnustofum. Fundurinn var upphaf að þeirri vegferð að spýta í lófana varðandi Vestfjarðaleiðina sem áhugaverðan stað að fara að vetrarlagi. Fyrirtæki sem eru með starfsemi á ársgrundvelli kynntu starfsemi sína til að sýna fram á möguleikana sem felast í heilsársferðaþjónustu á Vestfjörðum:

Bjarnheiður Jóhannsdóttir á Eiríksstöðum
Anna Björg Þórarinsdóttir kynnti starfsemi Galdrasafnsins
Nanný Arna Guðmundsdóttir kynnti starfsemi Borea

Fundurinn var mikilvægt skref í að hvetja til aukinnar vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum og að stuðla að lengingu ferðatímabilsins á svæðinu.