Fara í efni

Fyrir tíma posa og heimabanka

Fréttir

Allsérstök myndlista- og ljósmyndasýning stendur nú yfir í í veitingasal Hamraborgar á Ísafirði. Það er Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður sem á verkin á sýningunni, en ljósmyndirnar Árný Herbertsdóttir atvinnuljósmyndari.

Ljósmyndirnar eru af starfsfólki Landsbankans á Ísafirði prentaðar á striga, við hlið hverrar myndar er lágmynd sem Dýrfinna hefur gert og er úr nýsilfri, sem og silfri, blaðgulli, kopar, messing og svo stálþráðum.

Tileinkar Dýrfinna sýninguna starfsfólki bankans með þökk fyrir ánægluleg kynni og góða þjónustu í áranna rás og segir í fréttatilkuynningu að kveikjan hafi verið daglegar heimsóknir hennar í bankann, meðan hún bjó á Ísafirði. Þá var ekki til heimabanki og posar voru ekki komnir til sögunnar og því voru hin mannlegu beinu tengsl forsenda allra viðskipta. Bankinn ásamt Póshúsinu hafi verið hennar afdrep í erli dagsins. Og það hafi teygst úr banka- og pósthúsferðum því oft hafi verið staldrað við á Silfurtorgi og spjallað við mann og annan. Heitir sýningin Fyrir tíma posa og heimabanka.

Þessi frétt var flutt í Svæðisútvarpi Vestfjarða - www.ruv.is.