Fjórðungsþing Vestfirðinga að hausti hófst í dag. Jóhanna Ösp Einarsdóttir, fráfarandi formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, setti þingið og gerði að tillögu að þingforseti yrði Matthías Sævar Lýðsson, sem tók við fundarstjórn. Mættir voru 38 þingfulltrúa með 100% atkvæðavægi að meðtöldum umboðum. Fyrir þingið voru lögð 28 mál að viðbættum tveimur breytingartillögum sem verður tekið fyrir í nefndarstörfum í fyrramálið.
Jóhanna Ösp flutti sitt síðasta ávarp sem formaður og nýtti tækifærið til að klappa fyrir afmælisbarninu Fjórðungssambandi Vestfirðinga sem fagnar 75 ára afmæli í næsta mánuði. Hún fór yfir þær áskoranir sem Fjórðungssambandið hefur þurft að takast á við hingað til og þær áskoranir sem framundan eru.
Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu kynnti Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029 sem nú er í Samráðsgátt. Fór hún yfir vinnuna að baki henni og lauslega yfir uppsetningu og innihald. Einnig var farið yfir hvað hafi breyst frá því síðasta Sóknaráætlun var gerð og þann árangur sem náðst hefur.
Þá fór fram vinnustofa um framtíðarmyndir Vestfjarða sem var liður í gerð vinnslutillögu Svæðisskipulags Vestfjarða 2025-2050. Hrafnkell Proppé, skipulagráðgjafi, Urbana ehf. sem fer fyrir vinnunni fyrir hönd VSÓ ráðgjafar fór yfir stöðu verkefnisins og Herdís Sigurgrímsdóttir, sérfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf, fór yfir lýðfræðilega þróun Vestfjarða.
Lilja Magnúsdóttir, fyrir hönd Vesturbyggðar og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar, sýndu hvernig mismunandi sviðsmyndir gætu litið út í sveitarfélögunum miðað við þær forsendur sem unnið hefur verið með í svæðisskipulaginu. Í framhaldi af því unnu þinggestir ólíkar framtíðarmyndir á skemmtilegri vinnustofu og í lok hennar var gengið til kosninga um þá sviðsmynd sem þeim hugnast best fyrir framtíð Vestfjarða. Í boði voru þrjár sviðsmyndir: Andvari, meðbyr og gustur, niðurstöður kosninganna voru á þá leið að andvari fékk ekkert atkvæði, gustur hlaut 25 og meðbyr 26 atkvæði.
Þingstörf halda áfram í fyrramálið og um hádegisbil hefst streymi að nýju frá þinginu.