Þó marsmánuður sé ekki liðinn undir lok þá þurfið þið ekki lengur að bíða – því þökk sé páskaleyfi er fréttabréf Vestfjarðastofu þennan mánuðinn snemma á ferðinni! Fréttabréfið er stútfullt af fréttum af tíðindaríkum mánuði hjá Vestfjarðastofu. Þar segir frá ferðum til Cannes og Danmerkur, þar sem fyrirmyndareyjan Samsö var heimsótt, auk þess sem atvinnuráðgjafar heimsóttu aðila sem eru að fást við spennandi rannsóknaviðfangsefni. Til Cannes hélt Sigríður Kristjánsdóttir að kynna fjárfestingatækifæri á Vestfjörðum. Fjallað er um fundi um málefni skemmtiferðaskipa og fundaröð um málefni Breiðafjarðar svo fátt eitt sé nefnt.
Eins og Vestfirðingar vita þá eru á svæðinu norðanverðu PÁSKAR með hástöfum og þegar þetta er ritað rétt að bresta á með setningu Skíðavikunnar sem er stútfull af frábærri dagskrá í ár, svo ekki sé minnst á 20 ára afmæli Aldrei fór ég suður sem án nokkurs vafa fer í sögubækur fyrir háan stuðstuðul!
Við segjum bara gleðilega páska og megið þið njóta sem mest þið megið!