Fyrsti fundur Sóknahóps Vestfjarðastofu var haldinn fimmtudaginn 16. nóvember. Hópurinn var stofnaður í maímánuði og er hann hugsaður sem samstarfsvettvangur hagaðila á sviði atvinnu- og byggðaþróunar á Vestfjörðum. Markmiðið er að efla atvinnulífið með því að stilla saman strengi og skapa sterka rödd þess í umræðunni og er varðar ákvarðanatöku til framtíðar.
Fundagestir geta vafalítið sammælst um að þessi fyrsti fundur var hvort tveggja í senn afar áhugaverður og bráðskemmtilegur, enda frummælendur þungavigtarfólk í bjartsýni, krafti og skemmtilegheitum. Heiðrún Björk Jóhannsdóttir sagði frá hinu undraverða verkefni Netagerðinni, vinnustofum listafólks sem hafa fæðst nánast fullbúnar á einungis sjö mánuðum. Ingvar Örn Ingvarsson, almannatengill og framkvæmdastjóri Cohn og Wolfe fjallaði um hvernig styrkja mætti jákvæða ímynd Vestfjarða og hvaða leiðir mætti nýta til miðlunar á henni. Ingvar nefndi í erindi sínu margt sem telst getur til sérstöðu Vestfjarða og hversu auðveld aðgreining svæðisins getur verið vegna landfræðilegrar sérstöðu. Síst minni væri þó sérstaða svæðisins í menningarlegu tilliti og ættum við að vera ófeimin við að draga það fram. Hnífsdælingurinn, Baggalúturinn og Brandenburgarmaðurinn Bragi Valdimar Skúlason sem fjallaði einnig um ímyndarmál og eins og honum er lagið kom hann með innlegg um það hvernig nýta mætti húmor til að mæta því sem við hingað til höfum kannski talið til áskorana. Reyndar voru þeir Bragi Valdimar og Ingvar báðir á því að vandræði Vestfjarða þegar ímynd væri annars vegar væru ekki teljandi, mikil Vestfjarðaást væri yfir og allt um kring og ríkuleg meðal margra landsmanna og gesta.
Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, sem lyft hefur grettistaki í því að auka veg æðri menntunar á Vestfjörðum og lagt þung lóð á vogaskálar þess að auka aðgengi Vestfirðinga að menntun á háskólastigi steig næstur á stokk. Fjallaði hann um þau áhrif sem Háskólasetur Vestfjarða hefur haft í víðum skilningi og nefndi þar til að mynda alla þá sendiherra Vestfjarða sem nú eru komnir um heim allan eftir að hafa lokið meistaragráðu á Ísafirði – auk þeirra sem eftir hafa orðið og dregið íbúatölukúrvuna upp á við. Að erindi hans loknu var tími til skrafs og ráðagerða áður en hópurinn hélt undir traustri leiðsögn Halldórs Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar í nýja nemendagarða Háskólaseturs Vestfjarða.
Það er okkar trú að samkomur sem þessar hjálpi til við að hrista fólk saman og þarna sé kominn úrvals vettvangur til að blása fólki anda í brjóst sem allir geti svo tekið með sér heim og útfært eins og hverjum og einum er lagið.