Fara í efni

Góð þátttaka á Mannamóti

Fréttir

Þann 23. janúar s.l. stóðu markaðsstofur landshlutanna í fyrsta sinn fyrir sameiginlegum kynningarfundi ferðaþjónustuaðila af landsbyggðinni undir nafninu Mannamót. Mannamótið var haldið í flugskýli flugfélagsins Ernis frá 12-16, en þar komu saman um 160 öflug fyrirtæki af öllu landinu og kynntu vörur og þjónustu sína. Það voru fulltrúar 15 vestfirskra ferðaþjónustuaðila sem tóku þátt í viðburðinum en gaman var að geta sýnt nokkur af þeim flottu fyrirtækjum sem sinna ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Tilgangurinn með verkefninu er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru í Reykjavík og vinna með því að dreifingu ferðamanna um landið og uppbyggingu heilsársferðaþjónustu.

Mikill fjöldi gesta kom og tók þátt í kynningunni og voru allir sammála um að greinilega væri mikil gróska í ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Ljóst þykir að endurtaka verður þennan velheppnaða viðburð aftur að ári.