Fara í efni

Goddur og Hildur í Brúðuheimum á Listamannaþing Vestfjarða

Fréttir
Frá úthlutun Menningarráðs haustið 2009 - ljósm. Ágúst Atlason
Frá úthlutun Menningarráðs haustið 2009 - ljósm. Ágúst Atlason

Góðir gestir munu mæta á Listamannaþing Vestfjarða á Ísafirði sem haldið er á morgun, laugardag. Það eru Goddur (Guðmundur Oddur Magnússon) prófessor við Listaháskóla Íslands og Hildur M. Jónsdóttir framkvæmdastjóri Brúðuheima í Borgarnesi. Goddur mun flytja hugvekju um listina og landsbyggðina, en Hildur segir frá uppbyggingu Brúðuheima og tengd verkefni. Brúðuheimar hafa vakið mikla athygli fyrir það hversu vönduð uppbyggingin er í alla staði og nú er nýlega lokið alþjóðlegri brúðulistahátíð í Borgarnesi.

Listamannaþingið verður haldið á morgun laugardag kl. 13-16 í Listakaupstað í Norðurtanga, 3. hæð, og er samvinnuverkefni Menningarráðs Vestfjarða og Listakaupstaðar. Þar er kallað saman listafólk í ólíkum listgreinum um alla Vestfirði til skrafs og ráðagerða á eins konar stefnumót. Fulltrúar listgreina miðla af reynslu sinni og spekúlera í framtíð listarinnar á Vestfjörðum og listahátíðir í fjórðungnum eru kynntar. Þá verður lögð fram tillaga um stofnun Félags vestfirskra listamanna á Listamannaþinginu og ef hún fær góðar undirtektir verður slíkt félag stofnað á staðnum og kosið í stjórn. Allir eru velkomnir á Listamannaþingið, en dagskráin fylgir hér að neðan:

Dagskrá Listamannaþings Vestfjarða

13:00 Ólíkar listgreinar á Vestfjörðum og framtíð þeirra
- Fulltrúar heimamanna tala um ólíkar listgeinar

13:35 Vestfirskar listahátíðir kynntar:
- Leiklistarhátíðin Act Alone
- Tónlistarhátíðin Við Djúpið
- Heimildamyndahátíðin Skjaldborg
- Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður!

14:05 Skoðunarferð um Listakaupstað á Ísafirði
- Menningarráð Vestfjarða býður upp á kaffi og bakkelsi á Listamannaþinginu.

14:20 Málstofa um menningartengda ferðaþjónustu
- Hildur Magnea Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Brúðuheima í Borgarnesi
- Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða

15:00 Listin og landsbyggðin
- Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) flytur hugvekju

15:40 Stofnfundur félags vestfirskra listamanna
- Formlegur félagsskapur vestfirskra listamanna stofnaður á mettíma

Formlegri dagskrá líkur með gönguferð um menningarbæinn Ísafjörð, þar sem kíkt er við á nokkrum sýningarstöðum. Menningarlífið á Ísafirði er í blóma og mikið um að vera um helgina. Gestir á Listamannaþingi Vestfjarða eru hvattir til að staldra við á Ísafirði og njóta lífsins og listarinnar.