Fara í efni

Góður árangur vestfirskra verkefna úr Matvælasjóði

Fréttir

Vestfjarðastofa fagnar góðum árangri vestfirskra verkefna í fyrstu úthlutun Matvælasjóðs en alls 11 verkefni á Vestfjörðum hlutu stuðning. Flest verkefnin voru í flokknum Báru þar sem 8 verkefni frá Vestfjörðum voru studd. Í flokknum Kelda sem er flokkur rannsóknarverkefna hlaut Matís stuðning til tveggja verkefna þar sem vestfirskir aðilar eru samstarfsaðilar. Í flokknum Fjársjóður, sem styður markaðsetningu afurða var eitt vestfirskt verkefni. 

Þessi verkefni eru: 

Bára - 21.457.000
FLAK ehf - SJOSA - Fiski og þörungasósur (Patreksfjörður)
Freysteinn Nonni Mánason: Fullvinnsla laxaafurða á Íslandi: Hvar liggja tækifæri flökunar og hliðarafurða Odda á Patreksfirði
Jamie Lai Boon Lee - Kraftur úr Hafinu /Seaweed and seafood Provisions (Reykhólar)
Fiskvinnslan Hrefna ehf - Laxgæti verður til (Flateyri)
Sýslið verkstöð ehf - Skógarkerfill - Illgresi eða vannýtt matarauðlind (Hólmavík) 
Nordic Kelp - Afurðir úr beltisþara (Patreksfjörður)
Jake Maruli Thompson - Salmon on Seaweed (Ísafjörður / Bolungarvík) 
Sæverk ehf - Viðskiptaáætlun f. tilraunaveiðar og markaðssetningu á grjótkrabba (Þingeyri) 

Kelda - 46.900.000
Hér er um að ræða rannsóknarverkefni á vegum Matís með samstarfsaðila á Vestfjörðum. 
Matís - Streita Laxfiska (samstarfsaðilar 3X Technology, Arctic Fish)
Matís - Verðmæt efni úr hliðarstraumum þörungavinnslu (samstarfsaðilar: Thorverk hf. Þörungaklaustur, Síldarvinnslan, ORA, HÍ)

Fjársjóður - 21.000.000
Saltverk ehf - Markaðssókn á sjálfbæru sjávarsalti frá Saltverki í USA. 

Meðal þess sem lögð var áhersla á í starfsáætlun Vestfjarðastofu árið 2020 var að styðja við matvælaframleiðslu á Vestfjörðum og aðstoða við umsóknagerð í sjóði. Við fögnum því þessum góða árangri vestfiskra verkefna. Það vekur athygli okkar að forsvarsmenn tveggja af þessum styrktu verkefnum eru fyrrum nemendur Háskólaseturs Vestfjarða. Þar eru menntaðir frumkvöðlar sem komið hafa til náms og vilja reyna fyrir sér á svæðinu, skapa verðmæti og vera hér áfram. Það er fagnaðarefni. 

Vestfirðir eru matvælaframleiðslusvæði og sjá má áhugaverða og spennandi sprota á sviði matvælaframleiðslu víða. Útflutningsafurðir Vestfjarða eru að verulegu leiti matvæli og á svæðinu er mikil gjaldeyrissköpun en á sama tíma gríðarleg tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar. Af hálfu ríkisins er mikil áhersla lögð á nýsköpun sem birtist í auknum fjármunum í stóra opinbera sjóði og mikilvægt er að tryggja að vestfirsk fyrirtæki og frumkvöðlar séu vel í stakk búin til að nýta þau tækifæri sem þar bjóðast. Það er því ánægjulegt að sjá kraftinn sem birtist héðan í þessari fyrstu úthlutun Matvælasjóðs og vert að minna á að opnað verður fyrir umsóknir í sjóðinn að nýju í mars næstkomandi. Vestfjarðastofa aðstoðar við hugmyndavinnu og mótun verkefna og við hvetjum þá sem eru að vinna að frambærilegum verkefnum til að hafa samband við ráðgjafa okkar. Við vekjum jafnframt athygli á verkefninu Hugsum Hærra sem hefst í upphafi árs og ætlað er að styðja fyrirtæki og frumkvöðla sem sækja vilja um stuðning í stærri sjóði.