Fara í efni

Gréta Gísladóttir sýnir málverk í Einarshúsi

Fréttir

Gréta Gísladóttir sýnir málverk í Einarshúsi í Bolungarvík. Verkin eru unnin á árinu 2008 og eru þau öll máluð með acrylmálningu. Alls eru 8 verk á sýningunni og innblástur verkanna er aðallega sótt í náttúruna og hugarheim listamannsins, þau eru eilítið rómantísk en jafnframt kröftug.

Gréta er fædd 13. febrúar 1973 á Selfossi. Hún er leikskólakennari að mennt en árið 1999 - 2000 var hún í myndlistaskólanum. Hún hefur farið í Kunst- og hándværkhojskolen Engelsholm í Danmörku. Auk þess hefur hún sótt námskeið í myndlist. Gréta stundar nú nám við Myndlistaskóla Akureyrar, er á fyrsta ári í Fagurlistadeild.

Gréta er sambýliskona Karls Hallgrímssonar Bolvíkings og tengdadóttir Halla málara og Stínu læknaritara. Gréta hélt sína fyrstu myndlistasýningu í gamla Drymluhúsinu, síðan þá hefur hún haldið bæði einkasýningar og samsýningar, bæði á Íslandi og í Danmörku.

Gréta býður alla velkomna á sýninguna, sem fær að standa eitthvað fram í hið góða ár 2009. Heimasíða: web.mac.com/gretagisla. Opið er alla virka daga frá kl 10:00 - 16:00 og frá kl. 22:00 - 03:00 um helgar.

Fréttin er afrituð af www.vikari.is.