Mánudaginn 17. mars verður vinnufundur hjá Sóknarhópi Vestfjarða. Fundurinn fer fram í húsakynnum Vestfjarðastofu á Ísafirði og mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, ávarpa fundinn og taka spjall um atvinnulíf á Vestfjörðum við fundargesti í sameiginlegum hádegisverði fyrir fundinn. Auk hennar verður María Rut Kristinsdóttir þingmaður NV kjördæmis á fundinum og tekur þátt í spjallinu. Hádegisverðurinn hefst kl.12 og inniheldur ljúffenga súpu frá Tjöruhúsinu. Vinnufundurinn hefst kl.13. Nauðsynlegt er að skrá sig.
Eitt af áhersluverkefnum sóknaráætlunar Vestfjarða fyrir 2025 og 2026 er verkefni sem hefur hlotið heitið Gullkistan Vestfirðir og snýst það um að kynna hvað er til staðar í atvinnulífinu á svæðinu. Meðal annars verður blásið til stórrar sýningar undir sama heiti þann 6. september í íþróttahúsinu Torfnesi.
Á fundinum mun Bragi Valdimar Skúlason, sem áður hefur unnið með hópnum, leiða skemmtilega hópavinnu. Gestir fundarins geta með þeim hætti tekið virkan þátt í því að móta verkefnið og koma með þær áherslur í framkvæmd þess sem þeim þykja ákjósanlegar. Í vinnu sem þessari er mikilvægt að sem flestir komi að borðinu – ekki síst vegna þess að þátttaka sem flestra skilar breiðara eignarhaldi yfir verkefninu í heild sinni.
Sóknarhópur Vestfjarða er hagmunagæsluhópur atvinnulífs á Vestfjörðum sem varð til árið 2023. Öll sem standa í fyrirtækjarekstri á svæðinu eiga kost á að skrá sig í hópinn. Fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu og menningar fara sjálfkrafa í hópinn ef þau eru hluti af Markaðsstofu Vestfjarða. Við hvetjum fólk til að skrá sig í sóknarhópinn og taka þátt í þessari spennandi vinnu með okkur. Hægt er að skrá sig í Sóknarhóp Vestfjarða hér.
Öll þau sem þegar eru hluti af hópnum og hafa ekki þegar skráð sig á vinnufundinn bendum við á að megi gera það með því að fylla út einfalt skráningarform hér.