Fara í efni

Hæfnihringir njóta vinsælda

Fréttir

Aðsóknin í Hæfnihringi – stuðning fyrir konur í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni, hefur farið fram úr björtustu vonum, en nú hafa rúmlega 40 konur skráð sig og munu hefja leik innan skamms í 6 hópum. Verkefnið var sett upp sem samstarfsverkefni milli atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka síðastliðið haust.

Verkefnið er samstarfsverkefni Vestfjarðastofu, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Austurbrú, Samtaka sveitarfélaga á suðurlandi og Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum/atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar.

Hæfnihringirnir fara fram í gegnum fjarfundarbúnað sem auðveldar konum af öllu landinu til að taka þátt. Fundirnir verða 6 talsins í þessari umferð þar sem tæpt verður á þeim helstu áskorunum sem konurnar eru að glíma við, svo sem markaðssetning á samfélagsmiðlum og tímastjórnun. Í Hæfnihringjunum fá konurnar tækifæri til að tengjast öðrum konum í svipuðum sporum víðs vegar um landið, mynda tengslanet, deila sín á milli og fá ráð hjá öðrum. Auk þess verða leiðbeinendur hringjanna með viðeigandi fræðslu sem miðuð er út frá þeim áskorunum sem hver hópur á sameiginlegt að standa frammi fyrir. Hæfnihringirnir eru fjármagnaðir af samstarfsaðilunum og stendur því konunum til boða endurgjaldslaust.