Tvær helgar í ágústmánuði munu átta myndlistarmenn setja upp jafnmargar sýningar í Reykhólahreppi og Dölum með nokkuð öðrum hætti en venjulegt er. Verkefnið er hugsað sem safn sýninga sem eiga sér stað á sama tíma á nokkrum stöðum frá Búðardal til Reykhóla og verður unnið út frá staðháttum og sögu svæðisins. Slíkt fyrirkomulag kallar á samvinnu við heimafólk í Reykhólahreppi og Dalasýslu enda er eitt af markmiðum verkefnisins „að efna til samtals milli listamanna og heimamanna", eins og segir í kynningu.
Listamennirnir átta eru Eric Hattan, Hildigunnur Birgisdóttir, Hreinn Friðfinnsson, Kristinn G. Harðarson, Magnús Pálsson, Sigurður Guðjónsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir og Þóra Sigurðardóttir. Hugmyndin er að hvert þeirra velji sér sýningarstað eða svæði til þess að vinna með. Þar kemur til samstarfs og samtals við ábúendur eða forráðamenn viðkomandi staðar eða svæðis. Sýningarstaðurinn getur verið ákveðinn staður, húsarúst, hús í byggð, eyðibýli eða tiltekið svæði í sveitinni.
Það er því háð bæði verki og útfærslu viðkomandi listamanns og forráðamönnum staðarins hvernig því samstarfi yrði háttað. Sýningarnar verða einungis „opnar" tvær helgar í ágúst og landsvæðið sem þær virkja miðast við að hægt sé að fara á milli sýninganna á einum degi. Verkefnið er til þess ætlað að draga að gesti og leiða þá um sveitir Dalasýslu og Reykhólahrepps. Það ætti þannig að vera vel til þess fallið að vekja athygli á samspili menningar og náttúru á svæðinu - og á þeirri staðreynd, að við Breiðafjörð og í Dölum hafa margir listamenn sögu og samtíðar slitið bernskuskóm eða unnið lífsverk sitt.
Prentuð verða boðskort og auglýsing með korti af svæðinu og sýningarstaðir merkir þar inn. Sýningin verður auglýst í fjölmiðlum og á innri vef myndlistamanna auk þess sem vefur sýningarinnar verður tengdur við upplýsinga- og ferðavefi svæðisins.
Kveikjan að þessari hugmynd er löngun til að skapa tilefni til að dveljast og vinna úti á landi - sækja út fyrir hefðbundna sýningarsali, kynnast þessu landsvæði, sækja hugmyndir og vinna út frá náttúru og menningu landsins. Taka um leið þátt í mannlífi héraðanna, efna til samstarfs við heimamenn og að draga sýningargesti í ferðalag um þetta fallega svæði.
Verkefnið Hólar og Dalir nýtur stuðnings Menningarráðs Vestfjarða og Menningarráðs Vesturlands. Í forsvari fyrir listahópinn er Sólveig Aðalsteinsdóttir, sími 551 1949 og 692 1194.
Þessi frétt er afrituð lítið breytt af vefnum www.reykholar.is.