Fara í efni

Íbúafundur vegna verkefnisloka Sterkra Stranda

Fimmtudaginn 20. febrúar var haldinníbúafundur vegna verkefnisloka Sterkra Strandaút frá þátttöku þess í Brothættum byggðum. Verkefnið hófst í júní 2020 eftir nokkrar tafir vegna heimsfaraldurs og hefur staðið í á fimmta ár. Aðalsteinn Óskarsson fulltrúi Fjórðungssambands Vestfirðinga í verkefnisstjórn stýrði fundinum.

Staða í lok verkefnis
Sigurður Líndal, fráfarandi verkefnisstjóri, fór yfir nokkur atriði og skýrði framtíðarsýn verkefnisins og framgang í vinnu að markmiðum verkefnisins. Þar er vinna mislangt komin en ýmis mál hafa þokast vel áfram eða markmiðum náð. Einnig ræddi hann um frumkvöðlaverkefni sem hafa hlotið styrki úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda á árunum 2020-2024. Alls voru veittir 73 styrkir til frumkvæðisverkefna og heildarupphæðin er 73.020.000 krónur. Vinnu við þessi verkefni er að mestu lokið. Sigurði voru þökkuð góð störf í þágu samfélagsins og verkefnisins Sterkra Stranda.

Niðurstöður íbúakönnunar
Umsjónarfólk Brothættra byggða á landsvísu hjá Byggðastofnun og fulltrúar í verkefnisstjórn Sterkra Stranda fóru yfir niðurstöður könnunar sem gerð var meðal íbúa í Strandabyggð um mánaðamótin janúar - febrúar 2025. Í könnuninni var markmiðið að kanna viðhorf íbúa til atvinnu- og búsetumála í sveitarfélaginu, auk upplifunar af verkefninu Sterkar Strandir. Í svörunum kom meðal annars fram að íbúum líður almennt vel í Strandabyggð og mikill meirihluti telur líklegast að viðkomandi muni búa þar áfram. Þegar spurt var út í hvað íbúar teldu helst einkenna lífið á Ströndum svöruðu 46 það vera þætti er tengjast mannlífi og 44 það vera þætti er varða ósætti/sundrungu. Þá má segja að viðhorf til verkefnisins Sterkra Stranda séu sumpart blendin, en langflestir eru á því að halda eigi áfram að vinna með framtíðarsýn og markmið verkefnisins. Hér má sjá kynningu Byggðastofnunar á niðurstöðum könnunarinnar.

Kynningar frumkvöðla
Þrír frumkvöðlar kynntu sín verkefni. Jamie Lee kynnti verkefni sitt um uppbyggingu á vinnsluaðstöðu matvæla í Kuklinu á Hólmavík, en það er aðstaða sem búið er að innrétta í fyrrum fiskvinnsluhúsi á Hólmavík.

Finnur Ólafsson kynnti verkefnið Galdur Brugghús og uppbyggingu aðstöðu þar. Félagið hefur komið sér upp góðri aðstöðu í fyrrum fiskvinnsluhúsi en í húsinu hefur Finnur einnig leitt verkefni um uppbyggingu aðstöðu fyrir aðra frumkvöðla undir heitinu Kuklið, með stuðningi úr C.1 potti byggðaáætlunar á árinu 2024.

Röfn Friðriksdóttir kynnti verkefni um uppbyggingu aðstöðu fyrir fótsnyrtingu í fyrrum skrifstofuaðstöðu Kaupfélags Steingrímsfjarðar. Verið er að standsetja húsnæðið en sú vinna er langt komin. Hún hyggst einnig bjóða upp á fleiri þjónustuþætti svo sem handsnyrtingu og svæðanudd.

Strandabyggð bauð að þessu loknu upp á veitingar fyrir fundargesti.

Eftirfylgni Sterkra Stranda
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri, var með erindi um eftirfylgni við verkefnið Sterkar Strandir en Strandabyggð hefur nú tekið við keflinu og mun leiða verkefnið áfram. Í því samhengi var fundargestum skipað í þrjá hópa þar sem framtíðarskipulag þessarar vinnu var rætt. Fulltrúar hvers hóps gerðu grein fyrir niðurstöðum í lok umræðu. Þar kom fram að áhugi er á að fylgja verkefninu eftir.

Lokaávarp

Í lok fundar flutti Sigríður Elín Þórðardóttir, forstöðumaður Þróunarsviðs Byggðastofnunar, ávarp og nefndi m.a. að margt jákvætt hefði komið fram í niðurstöðum könnunar meðal íbúa sem vert væri að byggja á. Hún þakkaði að lokum samstarfsaðilum, íbúum  Strandabyggðar, Vestfjarðastofu og sveitarfélaginu Strandabyggð fyrir samstarfið í verkefninu Sterkrar Strandir og óskaði Strandamönnum velfarnaðar í framtíðinni.

Fréttin byggir að mestu á frétt á vef Byggðastofnunar og eru myndir einnig þaðan