Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa frá árinu 2004 gert íbúakönnun á þriggja ára fresti til að kanna viðhorf íbúa landshlutans til ýmissa mikilvægra mála og hvort sú afstaða taki breytingum frá einu ári til annars.
Könnuninni er einnig ætlað að vera innlegg í rannsóknir á búferlaflutningum og vinnumarkaði á Vesturlandi.
Eftir allnokkuð þróunarferli var ákveðið að bjóða öðrum landshlutum að vera með. Það þáðu Suðurland, Reykjanes, Vestfirðir og Norðurland vestra og er þessi skýrsla samantekt og samanburður á þessum landsvæðum.
Meginmarkmið könnunarinnar var að draga fram afstöðu íbúa einstakra landshluta til ýmissa þátta sem telja má meðal mikilvægustu búsetuskilyrða heimilanna. Auk þess var grennslast fyrir um hvort fólk íhugaði brottflutning og ánægju þess með að búa á viðkomandi stöðum, svo eitthvað sé nefnt.