Fara í efni

Íbúakönnun landshlutanna er komin út

Fréttir

Birtar hafa verið niðurstöður íbúakönnunar landshlutanna sem framkvæmd var á landinu öllu sl. vetur. 586 manns af Vestfjörðum tóku þátt í könnuninni sem er 42% af úrtaki og 5% lægra svarhlutfall en í síðustu könnun sem var framkvæmd árið 2020.

Í fyrsta hluta íbúakönnunarinnar á blaðsíðum 4-47 má finna svæðisbundna greiningu búsetuskilyrða þar sem spurt er um ánægju íbúa innan ólíkra flokka. Í niðurstöðum er Vestfjörðum skipt upp í þrjú mismunandi svæði: Norðanverða Vestfirði, Sunnanverða Vestfirði og Strandir og Reykhóla. Koma svæðin mismunandi út í flokkunum sem spurt er um. Í heildarsamanburði má sjá að Strandir og Reykhólar verma botnsæti þeirra svæða sem landinu hefur verið skipt upp í, sunnanverðir Vestfirðir eru neðarlega á lista en hafa farið upp um fjögur sæti síðan í síðustu könnun er svæðið var í neðsta sæti, norðursvæði Vestfjarða er í 11. sæti af 25. og bætir sig frá síðustu könnun. 

Á blaðsíðu 47 hefst kaflinn: staða og mikilvægi búsetuskilyrða. Þar er hægt að skoða breytingar á milli kannana ásamt samanburði við höfuðborgarsvæðið. Norðanverða Vestfirði að finna á blaðsíðum 83-85, Strandir og Reykhóla á blaðsíðum 101-103 og Sunnanverða Vestfirði á blaðsíðum 110-112.

Frá blaðsíðu 123 má finna niðurstöður annarra áhugaverðra spurninga líkt og hvar er gott að búa, búsetuáform, hamingju íbúa og miklu fleira.

Íbúakönnun landshlutanna er samstarfsverkefni allra landshlutasamtaka utan höfuðborgarsvæðisins, ásamt Byggðastofnun. Þátttakendur voru um 11.500. Könnunin byggir á tilviljunarkenndu úrtaki. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, pólsku og ensku. Íbúakönnunin var fyrst framkvæmd á Vesturlandi árið 2004 en síðan á þriggja ára fresti. Könnunin var nú framkvæmd í annað sinn á öllu landinu.

Hér má skoða íbúakönnun landshlutanna 2023