Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli hlaut menningarverðlaun Strandabyggðar við upphaf Hamingjudaga á Hólmavík. Eiríkur Valdimarsson, formaður tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar Strandabyggðar afhenti verðlaunin. Jóni var þakkað ötult menningarstarf í gegnum árin, enda hefur hann staðið fyrir ótal menningarviðburðum, haldið fyrirlestra, skipulagt sögugöngur og verið virkur félagi í Leikfélagi Hólmavíkur. „Með atorku sinni hefur hann fest hátíðir á borð við Vetrarsól og Hörmungardaga í sessi. Jón er einstaklega hvetjandi fyrir aðra sem vilja láta til sín taka í menningarlífinu, til í að aðstoða og miðla reynslu sinni“ segir Eiríkur.
Kristín Einarsdóttir í Hveravík hlaut hvatningarverðlaun Strandabyggðar. Hún er þekkt sem „okkar kona á Ströndum“ í Mannlega þættinum á Rás 1 og er með reglulega pistla á þriðjudögum. Hún þakkaði viðmælendum sínum og ekki síður hlustendum fyrir góðan árangur.
Verðlaunaafendingin markar upphaf Hamingjudaga á Hólmavík sem standa alla helgina.