Fara í efni

Kalksalt á Flateyri

Fréttir
Kalksalt í fötu. Mynd fengin af Facebooksíðu Kalksalts með leyfi eiganda
Kalksalt í fötu. Mynd fengin af Facebooksíðu Kalksalts með leyfi eiganda

Eitt af þeim 65 verkefnum sem hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða árið 2020 er verkefnið Kalksalt sem hafði það að markmiði að koma með nýja vöru inn á markað. Verkefnið snerist um að fá ný mót til að framleiða minni saltsteina en áður höfðu verið í framleiðslu. Fór Kalksalt í þessa vöruþróun til að svara kalli viðskipavina sinna í hópi fjárbænda og hestamanna. Fyrirtækið Kalksalt ehf er lítið fjölskyldufyrirtæki staðsett á Flateyri í Önundarfirði. Núverandi eigendur hafa víðtæka reynslu af bústörfum og áhuga á umhverfismálum. Saltið sem þau nota í vöruna er sótt til fiskverkana á Vestfjörðum og þannig er kolefnisspori vörunnar haldið í lágmarki. Einnig er það ávinningur að saltið hafi verið notað í fiskvinnslu enda dregur saltið í sig prótein, vítamín og önnur snefilefni frá fiskinum sem nýtist svo  búfénaðnum.

Framleiðslan dregur nafnið sitt af kalkþörungunum sem eru notaðir í vöruna. Þeir koma frá Kalkþörungaverksmiðunni á Bíldudal, en kalk hefur góð áhrif á vöxt beina, tanna, ullar og feld. Að auki kalksins eru í því selen, A-vítamín, E-vítamín og D3.

Á myndinni til hægri eru sýnishorn af saltsteinunum sem fóru í framleiðslu eftir að verkefnið sem hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða var klárað. 

Það er óhætt að segja að fyrirtækið Kalksalt sé á fljúgandi siglingu og verður fróðlegt að fylgjast með ‏‏því þróast og dafna á næstu árum. Vörur frá Kalksalti eru seldar um allt land í langflestum búvöruverslunum.