Fjórðungsþing Vestfirðinga að vori var haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði miðvikudaginn 2. apríl. Ágæt mæting var á þingið, sem var eins og jafnan er um Fjórðungsþing að vori, að meginhluta til ársfundur Fjórðungssambands Vestfirðinga. Á ársfundinum var farið yfir skýrslu stjórnar, ársreikning nýliðins árs og endurskoðaða fjárhagsáætlun líðandi árs.
Fyrir þingið hélt Samband íslenskra sveitarfélaga vinnustofu í samvinnu við Fjórðungssambandið þar sem sveitarstjórnarfólk var beðið að taka þátt í endurskoðun innviðaráðuneytis á níunda kafla sveitarstjórnarlaga þar sem fjallað er um leiðir sveitarfélaga til að eiga samstarf. Ágæt þátttaka var í vinnustofunni enda umfjöllunarefnið mikilvægt fyrir öll sveitarfélög.
Fjórðungsþing hófst eftir hádegið á ávarpi Arnars Þórs Sævarssonar framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga sem meðal annars minnti á að á þessu ári eru 80 ár liðin frá stofnun Sambandsins og greindi frá því að þeim tímamótum verði fagnað á margan hátt á árinu.
Tryggvi B. Baldursson fulltrúi Vesturbyggðar í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur sagt sig frá stjórnarsetu vegna veikinda og í hans stað var Þórkatla Soffía Ólafsdóttir kjörin í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga á þinginu.
Hrafnkell Proppé frá Úrbana skipulagsráðgjöf og Herdís Sigurgrímsdóttir frá VSÓ ráðgjöf kynntu drög að vinnslutillögu Svæðisskipulags Vestfjarða 2026-2050. Þar sem um er að ræða mikilvæga stefnumótun til framtíðar urðu eðli málsins samkvæmt öflugar og góðar umræður um vinnuna fram að þessu og margar góðar ábendingar komu fram sem Svæðisskipulagsnefnd og skipulagsráðgjafar vinna úr í framhaldinu.