Fara í efni

Landsþekktir skemmtikraftar troða upp á Markaðsdegi í Bolungarvík

Fréttir

Hinn árlegi Markaðsdagur í Bolungarvík verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 5. júlí nk. Mikið hefur verið lagt upp úr því að hafa dagskrána sem glæsilegasta og munu landsþekktir skemmtikraftar stíga á stokk og skemmta gestum og gangandi.

Kynnir á samkomunni verður enginn annar en Bolvíkingur allra landsmanna Pálmi Gestsson og á hann án efa eftir að sveipa skemmtiatriðin ævintýraljóma í kynningu sinni á dagskráratriðum. Ragnar Bjarnason mun stíga á stokk ásamt Þorgeiri Ástvaldssyni og ætla má að þeir félagar taki nokkra vinsæla smelli og hleypi enn meira fjöri í mannskapinn fyrir vikið. Túpílakarnir með Odd, söngvara Ljótu Hálfvitanna í broddi fylkingar, koma fram og ætla má að þeir taki lagið sem ómar svo ótt og títt á rás 2 þessa dagana og ber heitið “Brennið þið hálvitar” í bland við fleiri skemmtileg lög. Einnig kemur fram hópur af frambærilegum listamönnum frá Vestfjörðum og ber það einna helst að nefna hljómsveitina The Rimbrandts, Elín Sveinsdóttir, Eyrún Arnarsdóttir og Mysterious Marta. Að endingu og síðast en ekki síst mun Ný Dönsk spila af sinni alkunnu snilld á hátíðarsvæðinu en þeir kappar leika einnig á stórdansleik í Íþróttahúsinu Árbæ á laugardagskvöldinu.

Leiktæki, hoppikastalar, hringekjur og go-kart bílabraut verða á svæðinu en einnig munu trúðar leika lausum hala, auk þess verður boðið upp á andlistmálun, happdrætti og ýmsir skemmtilegir leikir verða í boði fyrir yngri kynslóðina. Auk alls þessa verður sungið við varðeld í gryfjunni líkt og undanfarin ár á föstudagskvöldið undir styrkri stjórn Benna Sig.

Af þessu má glöggt sjá að allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessari glæsilegu bæjarhátíð Bolvíkinga sem ætíð er haldin fyrsta laugardag í júli. Markaðurinn sjálfur spilar einnig stóran sess í hátíðarhöldunum enda þykir vinsælt að koma með vörur og selja gestum og gangandi á svæðinu. Aðalatriðið er þó síðast en ekki síst að koma saman og hafa gaman og brosa umfram allt framan í heiminn og njóta þess að vera til á Markaðsdegi í Bolungarvík.

Þessi frétt er afrituð óbreytt af www.vikari.is.