Fara í efni

Listamannaþing í Bolungarvík 12. maí

Fréttir
Úr leiksýningunni Skugga Sveinn hjá Litla leikklúbbnum á Ísafirði
Úr leiksýningunni Skugga Sveinn hjá Litla leikklúbbnum á Ísafirði

Aðalfundur og listamannaþing Félags vestfirskra listamanna verður haldið laugardaginn 12. maí kl.15 í félagsheimilinu í Bolungarvík.


Það verður mikið um að vera í félagsheimilinu allan daginn og fram á nótt, því hver viðburðurinn rekur annan. Aðalfundurinn er fyrstur á dagskrá og hefst kl. 15:00. Þetta er annar aðalfundur Félags vestfirskra listamanna, en félagið var stofnað fyrir ári síðan. Félagar eru nú þegar orðnir á annað hundrað talsins. Bæði félögum og verkefnum fer fjölgandi.


Lengri hefð er komin á listamannaþing. Það verður haldið í beinu framhaldi af aðalfundinum og er miðað við að það hefjist kl. 16:30. Þar munu fulltrúar listgreinanna dans, leiklist, myndlist og tónlist halda stutt erindi um stöðu og framtíð sinnar listgreinar. Eins munu þrír fulltrúar sýningar- og vinnustaða fyrir list vera með erindi. Auk allra þessara rammvestfirsku erinda verða góðir gestir með fyrirlestra. Það eru þau Vilborg Davíðsdóttir skáldkona og Sigurður Skúlason leikari.


Það er Sigurður Skúlason sem á næsta leik. Hann flytur einleikinn "Hvílíkt snilldarverk er maðurinn", verk eftir hann sjálfan og leikstjórann Benedikt Árnason. Mörgum er tamt að nota orðið "snilldarverk" þegar rætt er um þetta leikverk. Í lokin geta allir þinggestir fengið útrás í frjálsri danslist. Þá mun vestfirska stuðbandið Húsið á sléttunni leika fyrir dansi, dilli eða hoppi.


Ókeypis er á alla viðburði nema leiksýninguna. Þinggestir fá veglegan afslátt. Fríar kaffiveitingar verða í boði Félags vestfirskra listamanna. Milli málþings og leikrits verður boðið upp á matarmikla kjötsúpu gegn vægu gjaldi.