Fara í efni

Lokun útibúa Landsbanka á Vestfjörðum

Fréttir

Ályktun samþykkt á fundi stjórnar þann 30. maí 2012.

 

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga mótmælir harðlega ákvörðun Landsbanka hf um lokun útibúa bankans í Króksfjarðarnesi, Bíldudal, Flateyri og Súðavík, sem tilkynnt var þann 24. maí s.l. undir titlinum „Landsbankinn hagræðir í rekstri“. 

 

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga telur að þessi aðgerð Landsbanka hf sé aðför að þjónustu við íbúa og atvinnulíf í samfélögum á Vestfjörðum.  Aðgerðin taki í engu tillit til landfræðilegra aðstæðna og þar með jafnræði gagnvart viðskiptavinum bankans.

 

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga bendir að fábreytni atvinnulífs er talin ein af meginskýringum á fækkun íbúa á Vestfjörðum.  Hafa aðgerðir til að sporna við þeirri þróun verið meginviðfangsefni stjórnvalda á síðustu áratugum.  Aðgerð Landsbanka hf mun auka á þennan vanda og gengur bankinn þar í raun gegn stefnu stærsta eiganda síns. 

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga harmar því þessa fækkun stöðugilda og þá erfiðleika sem viðkomandi einstaklingar standa nú frammi fyrir við ákvörðun bankans. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga krefst því þess að Landsbankinn hf endurskoði þessa ákvörðun sína og komi til samráðs við stjórnvöld og samfélög á Vestfjörðum um ásættanlega úrlausn mála.