Fara í efni

Mannamót í Kórnum á morgun

Fréttir Markaðsstofa Vestfjarða

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna verða haldin á morgun 16. janúar í Kórnum í Kópavogi. Margir þekkja orðið mannamótin þar sem þau eru árviss ferðakaupstefna markaðstofanna í landinu. Mannamót markaðsstofanna er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni. Markmið og tilgangur er að skapa vettvang þar sem ferðaþjónar á landsbyggðinni kynna þjónustu sína og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu og í ár var í fyrsta sinn einnig boðið erlendum gestum.

Mannamót hafa þá sérstöðu að í sýningunni taka þátt fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, gömul og ný, frá öllum landshlutum. Segja má að Mannamót séu fyrst og fremst kjörinn vettvangur til tengslamyndunnar innan ferðaþjónustunnar; þar má efla tengsl við núverandi viðskiptavini, mynda ný tengsl og ekki síður til að kynnast samstarfsaðilum um allt land.

Starfsfólk Markaðsstofu Vestfjarða hefur haldið suður yfir heiðar til þátttöku í mannamótum og jafnframt í ferðaþjónustuvikunni sem nú fer fram. Aldrei hafa fleiri vestfirskir sýnendur skráð sig til leiks, en tuttugu fyrirtæki víðsvegar af Vestfjörðum verða í Kórnum á morgun á milli klukkan 12 og 17.