Fara í efni

Markaðsstofan stóð fyrir lokahófi ferðaþjóna

Fréttir

Blásið var til lokahófs ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum fimmtudaginn 14.nóvember. Fyrirhugað var að halda hófið í raunheimum en þar sem veðrið lék Vestfirðinga grátt þurfti að færa það yfir í netheima. Tveir fyrirlesarar úr ferðaþjónustunni voru fengnir til þess að flytja erindi, Hjalti Már Einarsson forstjóri Datera og Renée Blankenstein leiðsögumaður og sérfræðingur hjá Láki Tours. Sölvi Rúnar hjá Markaðsstofunni hóf samkomuna á erindi um Markaðsstofu Vestfjarða og þau fjölmörgu verkefni sem hafa verið unnin á árinu sem senn fer að ljúka.

Hjalti Már, flutti fyrirlestur um markaðssetningu og sölu á Vestfjörðum. Datera er stafrænt birtinga- og ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gagnadrifnum og sjálfvirkum auglýsingaherferðum. Hann fræddi hópinn meðal annars um “hegðun” ferðalanga og ferlið sem þeir ganga í gegnum þegar þeir bóka ferð, frá upphafi til enda og hvar ferðasalar standa í þessu ferli. Einnig fór hann yfir hvernig við á Vestfjörðum getum styrkt samkeppnisstöðu okkar í ferðaþjónustunni á Íslandi og mikilvæg skref sem hægt er að taka strax, með því að skerpa á ákveðnum atriðum eins og vefsíðum fyrirtækja.

Síðast en ekki síst hélt Renée Blankenstein fyrirlesturinn: Whale watching in Iceland: Guidelines for Sustainability. Erindið fjallaði um sjálfbærni í hvalaskoðun, gæðamál og bestu starfshætti (e. best practices) í hvalaskoðunarferðum. Fyrirtækjum í hvalaskoðunum á Vestfjörðum hefur farið fjölgandi og var þetta því virkilega fræðandi og þarft erindi.

Á næstu misserum fer af stað undirbúningsvinna í tengslum við vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum. Markaðsstofan mun vinna þá vinnu með ferðaþjónum og öðrum hagaðilum á svæðinu, en líkt og áður hefur komið fram hjá okkur fékk Markaðsstofan aukið fjármagn í þetta verkefni frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.