Rúm 62% landsmanna telja að fyrirhuguð virkjun Hvalár á Ströndum muni hafa góð áhrif á búsetu á Vestfjörðum, 66,6% að hún muni hafa góð áhrif á atvinnuuppbyggingu, 73% telja að hún muni hafa góð áhrif á raforkumál í fjórðungnum og 64,9% telja að Hvalárvirkjun muni hafa góð áhrif á samgöngur á Vestfjörðum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir Vestfjarðastofu á viðhorfum landsmanna til orkumála og til Hvalárvirkjunar. Um netkönnun var að ræða sem gerð var á tímabilinu frá 8.-20. mars síðastliðinn. Í úrtaki könnunarinnar voru 1424 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Af þeim svöruðu 798 og var þátttökuhlutfallið því 56%.
Samkvæmt könnuninni eru 40,9% landsmanna hlynntir virkjun Hvalár á Ströndum, en 31,4% eru andvígir og 27,7% eru hvorki hlynntir né andvígir. Karlar eru almennt hlynntari virkjun Hvalár en konur og voru 55% karla hlynntir virkjuninni en 25% kvenna.
Þegar spurt var um almenna afstöðu til vatnsaflsvirkjana reyndust 70,2% þátttakenda jákvæðir gagnvart vatnsaflsvirkjunum en 9,2% neikvæðir. Sem fyrr voru karlar almennt jákvæðari gagnvart vatnsaflsvirkjunum en konur, en 82% karla voru jákvæðir gagnvart vatnsaflsvirkjunum en 55% kvenna. Af þeim sem eru jákvæðir gagnvart vatnsaflsvirkjunum almennt var yfir helmingur (57%) hlynntur virkjun Hvalár á Ströndum en 20% andvígur.
Niðurstöður könnunarinnar má finna hér.