Fara í efni

Melrakkasetur stofnað í Súðavík

Fréttir
Ester Rut og Ómar Már
Ester Rut og Ómar Már

Melrakkasetur Íslands ehf var stofnað á fundi þann 15. september 2007 í félagsheimilinu í Súðavík. Á stofnfundinum var safnað 1.870.000 krónum í hlutafé og eru hluthafar í Melrakkasetrinu 39 talsins.

Á fundinum voru flutt tvö erindi, Ester Rut Unnsteinsdóttir líffræðingur hélt fyrirlestur um sögu, atferli og líf refa á Íslandi og fór yfir hugmyndir um hvernig starfsemi Melrakkasetursins yrði háttað. Jón Jónsson, nýráðinn menningarfulltrúi Vestfjarða, hélt erindi um þau tækifæri sem gefast með uppsetningu safna og setra. Til samanburðar sagði hann frá uppsetningu Galdrasýningar á Ströndum og fór yfir þau jákvæðu áhrif sem slíkt verkefni getur haft á samfélagið. Ómar Már Jónsson sveitarstjóri Súðavíkurhrepps stjórnaði fundinum.

Í stjórn Melrakkasetursins voru kosin Ómar Már Jónsson, formaður stjórnar, Barði Ingibjartsson, Dagbjört Hjaltadóttir, Ester Rut Unnsteinsdóttir, Þorleifur Ágústsson og til vara var kosinn Böðvar Þórisson.