Í gær komu góðir gestir á Vestfjarðastofu er nemendur í áfanganum hugmyndir og nýsköpun við Menntaskólann á komu við og fengu fræðslu um samfélagslega nýsköpun hjá verkefnastjórunum Steinunni Ásu Sigurðardóttur og Önnu Sigríði Ólafsdóttur. Vestfjarðastofa er þátttakandi í NPA-verkefninu MERSE sem snýr að samfélagslegri nýsköpun í dreifðum byggðum og var kynningin liður í því að auka meðvitund unga fólksins um hvernig það getur með nýsköpunarverkefnum haft áhrif á samfélagið sitt til góðs.
Hugmyndir og nýsköpun er skylduáfangi hjá þeim sem taka stúdentspróf og komu tæplega 40 nemendur í heimsókn í tveimur hópum ásamt kennara sínum Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur. Eftir stutta fræðslu tóku ungmennin smá hugarflug um hvað væri hægt að skapa undir formerkjum samfélagslegrar nýsköpunar á fjórum sviðum: náttúru og umhverfi, ungt fólk á Vestfjörðum, nærsamfélagi og hópum með skertan aðgang.
Eitt af höfuðeinkennum samfélagslegrar nýsköpunar er að þar bregst fólk við þeim götum í samfélaginu sem ríki og sveitarfélög eru ekki að fylla upp í með sínum verkefnum. Hjá ungmennunum var því eðlilega mikið um hugmyndir sem sneru að aukinni þjónustu við þau, líkt og ungmennahús og fjölbreyttari afþreyingarmöguleikar. En einnig létu þau sig samgöngur og innviði varða og kölluðu eftir betri vegum, auknum almenningssamgöngum og bensíndælum á Suðureyri.
Nemarnir vinna nú að því að skapa sín eigin nýsköpunarverkefni sem verða kynnt á árlegri Vörumessu MÍ sem verður haldin í húsnæði Vestfjarðastofu í byrjun apríl. Viðburðurinn verður öllum opinn og verður spennandi að sjá hvaða nýsköpunarverkefni þau koma til með að kynna fyrir gestum.