Fara í efni

Mikil spenna fyrir frumsýningu Forleiks

Fréttir

Mikil spenna er fyrir frumsýningu Forleiks á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði í kvöld en sýndir verða fjórir einleikir áhugaleikara. „Þetta leggst rosa vel í okkur og það er mikil spenna í gangi“, sagði Marta Sif Ólafsdóttir, ein leikaranna þegar blaðamaður náði á hana rétt áður en hún fór á generalprufu í gær. Auk hennar flytja Marsibil Kristjánsdóttir, Ingi Árnason og Sveinbjörn Hjálmarsson fjóra íslenska einleiki. Þeir eru: Súsan baðar sig, Munir og minjar, Það kostar ekkert að tala í GSM hjá guði og Örvænting. Sýningin er hugsuð sem forleikur fyrir einleikjahátíðina Act alone sem fer fram í fimmta sinn dagana 2.-6. júlí á Ísafirði.

Aðstandendur sýningarinnar notuðu fremur nýstárlega leið til að auglýsa Forleik en birt var kynningarmyndband á veraldarvefnum, svipað því sem tíðkast með kvikmyndir áður en þær koma í bíóhús. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við myndbandinu og fólk virðist hafa gaman af þessu“, segir Marta.

Kómedíuleikarinn og framkvæmdastjóri Act alone Elfar Logi Hannesson leikstýrir en um er að ræða samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Litla leikklúbbsins á Ísafirði. Enn eru lausir miðar á frumsýninguna en hægt er að panta þá með því að senda tölvupóst á komedia@komedia.is eða hringja í síma 897-2020.

Næstu sýningar verða dagana 18. og 23. maí á veitingastaðnum Við Pollinn, 6. júní í Kjallaranum í Bolungarvík og 7. júní í Vagninum á Flateyri. Sýningarnar hefjast kl. 21 og miðinn kostar 1.500 krónur.

Þessi frétt er afrituð óbreytt af fréttavefnum www.bb.is.