Fara í efni

Minjaráð Vestfjarða stofnað

Fréttir
Frá vinstri: Guðrún Stella Gissurardóttir, Jón Jónsson, Þór Hjaltalín minjavörður Norðurlands vestra…
Frá vinstri: Guðrún Stella Gissurardóttir, Jón Jónsson, Þór Hjaltalín minjavörður Norðurlands vestra, Magnús A. Sigurðsson minjavörður Vesturlands, Jón Sigurpálsson og Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunnar

Nú hefur verið stofnað Minjaráð Vestfjarða sem er ráð sem starfar með Minjastofnun Íslands sem hefur umsjón með minjavörslu í landinu. Minjastofnun fer m.a. með eftirlit með fornminjum, friðuðum húsum og mannvirkjum, og vinnur að stefnumörkun í málaflokknum og skráningu og varðveislu upplýsinga. Tilgangurinn með minjaráðunum er að mynda öflugt bakland fyrir þjóðminjavörsluna og efla tengsl við fólk um land allt, sem lætur sig þessi mál varða. Í flestum landshlutum hefur verið starfandi minjavörður sem stýrir starfi minjaráðanna, en slíkur hefur ekki verið á Vestfjörðum frá 2011. Nú stendur hins vegar til að bæta úr því og á næstunni verður starf minjavarðar Vestfjarða auglýst.

 

Í Minjaráði Vestfjarða eru auk tilvonandi minjavarðar Vestfjarða; Jón Sigurpálsson safnstjóri Byggðasafns Vestfjarða og Steinunn Kristjánsdóttir prófessor í fornleifafræði við HÍ sem eru tilnefnd af Þjóðminjaverði, Guðrún Stella Gissurardóttir forstöðumaður þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum og Ingibjörg Emilsdóttir hótelstjóri á Hólmavík sem tilnefnd eru af Fjórðungssambandi Vestfjarða og Jón Jónsson þjóðfræðingur og menningarfulltrúi Vestfjarða og Nanna Sjöfn Pétursdóttir skólastjóri Grunnskóla Vesturbyggðar sem tilnefnd eru af Minjastofnun.

 

Meðfylgjandi myndir eru teknar á hugmyndafundi sem haldinn var á Ísafirði í tengslum við stefnumótun Minjastofnunar Íslands fyrir skemmstu, en minjaráð Vestfjarða var stofnsett og kom saman í fyrsta sinn í tengslum við þann fund.