Það vekur athygli hversu mörg störf er verið að auglýsa á Vestfjörðum þessa dagana. Ljóst er að mikill skortur er á rafvirkjum því Orkubú Vestfjarða auglýsir eftir rafvirkjum bæði á suður og norðursvæði Vestfjarða undir fyrirsögninni "Sækir þú orku til fjalla". Arctic Fish auglýsir eftir rafvirkja í seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Tálknafirði. Póllinn á Ísafirði auglýsir einnig eftir rafvirkja og að auki starfsmanni í verslun fyrirtækisins. Það er því ljóst að mörg tækifæri eru fyrir rafvirkja á Vestfjörðum um þessar mundir.
Fleiri störf eru auglýst á svæðinu. Starf forstöðumanns Fjölmenningarseturs er laust til umsóknar og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða auglýsir eftir deildarstjóra hjúkrunar á norðursvæði Vestfjarða og eftir hjúkrunarfræðingi á suðursvæðið. Matvælastofnun auglýsti eftir forritara til starfa á starfsstöð á Ísafirði.
Arnarlax auglýsir eftir fólki í vinnslu á Bíldudal og á Hólmavík var nýverið auglýst eftir frístundaleiðbeinendum í félagsmiðstöðina Ozon.
Hér er alls ekki um tæmandi yfirlit að ræða yfir laus störf á svæðinu en ljóst er að í boði eru fjölbreytt störf víða á Vestfjörðum.