Vorönn Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði er nú að hefjast af fullum krafti. Auk hinna hefðbundnu námskeiða, eins og kennslu í vinnukonugripum á gítar og leiklistanámskeiði fyrir börn, mun Pétur Guðmundsson listmálari kenna teiknun og akrílmálum og Nina Ivanova vatnslitun. „Svo verður Einar Kárason rithöfundur með námskeiðið „Leiðarvísir inn í Sturlungu“, sem er mjög spennandi“, segir Margrét Gunnarsdóttir skólastjóri. „Þetta verða fjórar kennslustundir dagana 22.-23. febrúar, en það hefur alls staðar verið yfirfullt á þessi námskeið fyrir sunnan.“
Meðal annarra námskeiða í skólanum má nefna slagverksnámskeið Tuma Jóhannssonar, yoganámskeið Sigrúnar Viggósdóttur, rafgígjukennslu Jóns Hallfreðs Engilbertssonar, stórsveitarnámskeið Írisar Kramer, leirlistarnámskeið Ólafar Bjarkar Oddsdóttur, ballet- og jazzballetnám undir stjórn Katri Manner, að ógleymdri píanókennslunni sem hefur lengst af verið fyrirferðamest í námsskránni. Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðunni edinborg.is.
Þessi frétt er afrituð af www.bb.is.