Guðrún Anna Finnbogadóttirhefur verið ráðin verkefnastjóri Vestfjarðastofu á Patreksfirði. Guðrún Anna er uppalin á Ísafirði en hefur verið búsett ásamt fjölskyldu sinni á Patreksfirði frá árinu 2013.
Guðrún Anna hefur víðtæka reynslu og hefur síðustu sex ár unnið sem framleiðslu- og gæðastjóri hjá Odda hf á Patreksfirði þar sem hún hefur auk þess að fylgja eftir framleiðslu á ferskum fiski til útflutnings séð um faglega vinnu, skipulagt skráningar og verkferla varðandi gæðamál fyrirtækisins. Guðrún Anna hefur umtalsverða reynslu og þekkingu í sjávarútvegi sem mun nýtast vel í hinu nýja starfi og hefur bæði komið að ráðgjöf, rannsóknum og framleiðslu í sjávarútvegi og tengdum greinum. Guðrún Anna er með M.Sc gráðu í umhverfisstjórnun frá Álaborgarháskóla í Danmörku og B.Sc gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri.
Guðrún Anna kemur til starfa hjá Vestfjarðastofu með haustinu en hún verður kærkomin viðbót í öflugt teymi starfsmanna Vestfjarðastofu. Fjölmörg stór verkefni eru í vinnslu við uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum og í tengslum við að móta framtíðarsýn í sjávarútvegi og því verður það mikill styrkur að fá liðsauka ferskan úr greininni.
Við bjóðum Guðrúnu Önnu velkomna í hópinn.