Hafsjór af hugmyndum auglýsir styrki til háskólanema á vegum sjávarútvegsklasa Vestfjarða. Styrkirnir eru ætlaðir til vinnslu lokaverkefna háskólanema í grunn- eða framhaldsnámi við íslenska háskóla. Lokaverkefnin ættu að hafa það að markmiði að skapa aukin verðmæti úr sjávarauðlindum eða efla atvinnulíf á Vestfjörðum. Markmiðið með verkefninu er að hvetja til nýsköpunar og skapa tengsl háskólanema og fyrirtækja í gegnum samstarf. Vonast er til að með þessu megi skapa ný og eftirsóknarverð störf í sjávarútvegi eða tengdum greinum á Vestfjörðum og auka þekkingu á sjávarbyggðum Vestfjarða reista á vísindalegum grunni.
Hægt er að vinna verkefni út frá tveimur útgangspunktum. Annað hvort koma sjálf með hugmynd eða vinna að fyrirfram mótuðum hugmyndum frá fyrirtækjum í sjávarútvegsklasa Vestfjarða. Þau verkefni sem stendur til boða að vinna eru:
Rannsókn á hljóðbylgjufrystingu á laxi þar sem lagt er mat á hvort sú tækni hafi áhrif á ýmsa gæðaþætti og geymsluþol á laxi.
Markaðsrannsókn þar sem skoðað er hvort tiltekin vara sé að rata á rétta markaði.
Rannsókn sem snýr að athugun á sjálfbærnimöguleikum rekstrar.
Tilraunir á söfnun og geymslu laxablóðs við iðnaðaraðstæður, þar sem lagt yrði mat á söfnun, geymslu og nýtingu á laxablóði.
Frekari upplýsingar um þessi verkefni veita þau Guðrún Anna Finnbogadóttir og Magnús Bjarnason, verkefnisstjórar Hafsjós af hugmyndum. Við minnum þó á að nemum er frjálst að koma með sínar eigin hugmyndir að verkefnum og er þetta ágæta tvíeyki einnig tilbúið til skrafs og ráðagerða um slíkt.
Fjölmörg fyrirtæki skipa sjávarútvegsklasa Vestfjarða og auk styrksins er hægt að leita til þeirra um þátttöku, hvort sem hún er fólgin í upplýsingagjöf, hráefnisöflun eða aðstöðu.
Valin verða 5-8 lokaverkefni sem hljóta styrk á bilinu 250.000-750.000 kr eftir umfangi. Skilafrestur er 15. nóvember 2023.
Hér má kynna sér allt um Hafsjó af hugmyndum og meðal annars er þarna að finna umsóknareyðublað fyrir verkefni.