Um þessar mundir er opið í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða vegna verkefna sem eiga að koma til framkvæmda árið 2025. Í vikunni verða opnar vinnustofur vegna umsóknagerða, en umsóknarfrestur er til kl. 16, þann 31. október. Vinnustofur verða á starfsstöðvum Vestfjarðastofu sem hér segir:
Hólmavík mánudaginn 21. okt. kl. 16-18
Patreksfirði þriðjudaginn 22. okt. kl. 16-18
Ísafirði miðvikudaginn 23. okt kl. 16-18
Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkir nýsköpun, uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarf á Vestfjörðum. Uppbyggingarsjóður er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styrkja verkefni sem falla að Sóknaráætlun Vestfjarða. Styrkirnir eru tvennskonar; verkefnastyrkir til atvinnuþróunar, nýsköpunar og á sviði menningar ásamt stofn- og rekstrarstyrkjum á sviði menningar. Vestfjarðastofa annast umsýslu sjóðsins í landshlutanum fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga.