Vestfjarðastofa kallar eftir áhugasömu fólki til að sitja í Samráðsvettvangi Sóknaráætlunar 2020-2024. Vettvangurinn mun koma saman í nóvember 2020 og rýna það sem gert hefur verið í Sóknaráætlun Vestfjarða á árinu 2020 ásamt því að leggja til álit varðandi þær tillögur að áhersluverkefnum sem munu koma inn og unnið áð á árinu 2021. Samráðsvettvangurinn hefur ekki vald til að samþykkja eða synja verkefnum heldur er hann eingöngu ráðgefandi. Öll samskipti munu fara fram á rafrænum vettvangi.
Fram kemur í samningi um sóknaráætlun að landshlutasamtökin skulu skipa samráðsvettvang þar sem tryggð er sem breiðust aðkoma ólíkra aðila og gætt að búsetu-, aldurs- og kynjasjónarmiðum. Landshlutasamtökin skilgreina hlutverk og verkefni samráðsvettvangs og skal hann hafa beina aðkomu að gerð sóknaráætlunar landshlutans og vera upplýstur um framgang hennar. Samráðsvettvangur 2015-2019 kom saman á síðasta ári og hafði beina aðkomu að gerð þeirrar sóknaráætlunar sem er í gildi.