Fara í efni

Pétur og Einar - Saga frumkvöðla í Bolungarvík

Fréttir

Einleikurinn Pétur og Einar - Saga frumkvöðla í Bolungarvík, samstarfsverkefni Einarshúss og Kómedíuleikhússins, var frumsýndur í Einarshúsi á laugardaginn 31. maí síðastliðinn og önnur sýning sunnudaginn um sömu helgi. Fleiri sýningar munu fylgja í kjölfarið. Í einleiknum túlkar Elfar Logi líf og störf þeirra manna sem settu hvað mestan svip á Bolungarvík á miklum uppgangstímum og sveipa sögu þeirra ævintýraljóma. Frumkvöðlarnir Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson voru miklir athafnamenn hvor á sínum tíma og stjórnuðu stórveldum sínum af skörungsskap. Þeir bjuggu báðir í húsi harma og hamingju, Péturshúsi sem síðar var nefnt Einarshús.

Í sýningunni leiða Soffía Vagnsdóttir og Elfar Logi saman hesta sína öðru sinni, en á síðasta ári settu þau upp sýninguna Jólasveinar Grýlusynir sem sýnd var við góðan orðstýr í Tjöruhúsinu. Þar að auki voru íbúar bæjarins kallaðir til aðstoðar og brugðu þeir sér í hljóðver í Bolungarvík og sungu með íðilfögrum röddum, allt frá jólalögum og sálmum til vel þekktra þorrablótsvísna. 

Það var Ragna Jóhanna Magnúsdóttir veitingamaður í Einarshúsi sem átti frumkvæðið að uppsetningu sýningarinnar og vann að fjármögnun verksins. Fékk hún Elfar Loga og Kómedíuleikhúsið til liðs við sig til að koma sögunni á fjalirnar.