Fara í efni

Popparar flytja lög við ljóð Steins

Fréttir

Ferð án fyrirheits er yfirskrift tónleika sem verða í Edinborgarhúsinu á miðvikudagskvöld. Nafnið er sótt í eina af ljóðabókum Steins Steinarr, en í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu hans. Söngvararnir KK, Ellen Kristjánsdóttir, Þorsteinn Einarsson, Hildur Vala og Svavar Knútur munu flytja lög sem samin hafa verið við kvæði skáldsins. Umsjón með tónleikunum hefur Jón Ólafsson tónlistarmaður en hann hefur í félagi við Sigurð Bjólu samið ný lög við kvæði Steins og verða þau frumflutt á þessum tónleikum. „Það verður spennandi að heyra hvað samstarf þeirra félaga getur af sér. Mörg þekkt lög hafa orðið til við kvæði Steins í gegnum tíðina og má þar nefna Barn, Ræfilskvæði, Verkamaður, Það vex eitt blóm fyrir vestan og Hudson Bay sem dæmi. Eitthvað þessara laga verða vafalítið á dagskránni á þessum tónleikum“, segir á vef Edinborgarhússins.

Söngvurunum til fulltingis verður hljómsveit skipuð þeim Jóni Ólafssyni, Guðmundi Péturssyni, Helga Svavari Helgasyni, Valdimari Kolbeini Sigurjónssyni, Hrafnkeli Orra Egilssyni og Unu Sveinbjarnardóttur.

Jón Ólafsson hefur gengið með hugmyndina að þessum tónleikum í nokkur ár og með góðri liðveislu hefur hugmyndin nú orðið að veruleika. Hann er einn fjölmargra íslenskra lagahöfunda sem hafa gert lög við kvæði Steins Steinarr og sennilega er lag hans við Passíusálm no. 51 hvað þekktast „Skyldi manninum ekki leiðast að láta krossfesta sig?“.

Jón hefur komið víða við á löngum ferli sem tónlistarmaður. Hann hefur leikið á píanó frá blautu barnsbeini og verið afkastamikill lagahöfundur, útsetjari, flytjandi og upptökustjóri á íslenskum plötum síðustu 20 árin. Hann hefur komið að tónlist í fjölda leiksýninga, ýmist sem tónskáld eða tónlistarstjóri, auk þess að semja tónlist fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Fyrir þremur árum gaf hann út sína fyrstu sólóplötu og síðan þá hefur önnur bæst í safnið. Jón hefur einnig stýrt tónlistarþáttum í sjónvarpi við miklar vinsældir.

Fréttin er afrituð af vefnum www.bb.is. Menningarráð Vestfjarða styrkir tónleikana Ferð án fyrirheits á Ísafirði.