Fara í efni

Samningur um Lýðháskóla á Flateyri

Fréttir

Vestfjarðastofa fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga og Félag um stofnun Lýðháskóla á Flateyri hafa gert með sér samkomulag um stuðning við stofnun Lýðháskóla á Flateyri.

Undirbúningur að stofnun Lýðháskóla á Flateyri hefur staðið í nokkurn tíma og verður skólinn settur að viðstöddum Forseta Íslands þann 22. september. Um þrjátíu nemendur hefja þá nám í skólanum á tveimur námsbrautum.

Í umsókn kom fram að lýðháskóli svari ríkri kröfu um aukna valkosti í menntun. Byggt verði á hugmyndafræði lýðháskóla með áherslu á mannrækt, listsköpun, sjálfbærni, þjálfun og persónuleg gildi menntunar sem slíkrar, án prófa eða eininga. Gert verði ráð fyrir ríku félags- og fræðslustarfi utan námskrár skólans.

Stuðningur við stofnun Lýðháskóla á Flateyri er meðal áhersluverkefna Sóknaráætlunar Vestfjarða árið 2018 og tengist meðal annars markmiðum áætlunarinnar um mannauð og hærra menntunarstig. Árangursmælikvarðar verkefnisins tengjast fjölda nemenda og fjölgun ungs fólks á Flateyri.

Helena Jónsdóttir skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri segir stuðning úr Sóknaráætlun Vestfjarða hafa skipt miklu máli til að tryggja að hægt væri að fara af stað með tvær námsbrautir haustið 2018.