Fara í efni

Sjóræningjar í startholunum

Fréttir

Fréttamaður Tíðis kom við í smiðjunni á Vatneyri á Patreksfirði í vikunni og náði tali af Ólafi Engilbertssyni sýningahönnuði og Öldu Davíðsdóttur yfirsjóræningja. Ólafur var kominn vestur til að skoða húsið og mun í framhaldinu hefjast handa við hönnun sýningarinnar sem sett verður upp á næstunni. Það var hugur í þeim og tjáðu þau fréttamanni að nú bíða Sjóræningjar spenntir eftir því að fá afhentan þann hluta smiðjunnar sem ætlað er að taka fyrst í notkun svo hægt sé að byrja á tiltekt og viðgerðum.

Áætlanir Sjóræningja gera ráð fyrir að taka fyrsta hluta hússins, u.þ.b. 100 m2, í notkun í vor, næstu 100 m2 vorið 2009 og síðan verður unnið að viðgerðum og bætt við sýninguna eftir því sem fjármagn leyfir.

Sögur af sjóránum eru Ólafi ekki ókunnar en síðastliðið vor setti hann upp sýningu um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum og hann sá einnig um hönnun sýningar um Spánverjavígin svokölluðu hjá Snjáfjallasetrinu á Ströndum. Ólafur er sagnfræðingur og hefur nýverið lokið MA-námi í hagnýtri menningarmiðlun en hefur einnig mikla reynslu af gerð leikmynda fyrir sjónvarp og leikhús. Þá má nefna að Ólafur hefur tekið þátt í endurreisnarstarfi því sem unnið hefur verið í Selárdal undanfarin ár og tók þátt í gerð heimildamyndar um Samúel Jónsson sem sýnd var árið 1999.

Alda sagði einnig frá því að þessa dagana vinnur Oddný Guðmundsdóttir landslagsarkitekt að hönnun útisvæðis og framkvæmdir hefjast við það um leið og svæðið losnar.

Þessi frétt er afrituð af www.patreksfjordur.is.