Menningarmiðstöðin Edinborg; Litli Leikklúbburinn, Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar og Myndlistarfélagið á Ísafirði, setur upp langvinsælasta leikrit Íslandssögunnar, Skugga Svein, eftir Matthías Jochumsson í leikstjórn Hrafnhildar Hafberg í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Verkið verður frumsýnt laugardaginn 17. nóvember 2007.
Leiksýningin er hin fyrsta sem Litli Leikklúbburinn setur upp í endurnýjuðu Edinborgarhúsi, nýju leikhúsi félagsins. Leikritið Skugga-Sveinn var fyrsta leiksýning sem opin var öllum almenningi á Ísafirði. Það var árið 1879 og var Skugga-Sveinn þá sýndur í pakkhúsi Ásgeirsverslunar í Miðkaupstað. Það þykir því við hæfi að fyrsta sýning sem sett er upp í nýendurgerðu Edinborgarhúsi sé einmitt Skugga-Sveinn.
Leikmynd verksins er hönnuð af Jóni Sigurpálssyni og Pétri Guðmundssyni og er hún tileinkuð Sigurði Guðmundssyni málara sem var frumkvöðull í leikmyndahönnun á Íslandi.
Á sýningartímabilinu verður boðið upp á leikhúskvöld í Edinborgarhúsinu – notalega kvöldstund í skammdeginu – út að borða á Kaffi Edinborg og í leikhús á eftir. Frumsýning er laugardaginn 17. nóvember, næstu sýningar eru 18., 25., 27. og 30. nóvember og 1. desember. Miðapantanir og sala eru í síma 450-5555 og allar nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.edinborg.is.