Fara í efni

Sóknaráætlanir 2025-2029 undirritaðar

Fréttir Sóknaráætlun Vestfjarða

Í gær fór fram í Norræna húsinu undirritun Sóknaráætlanasamninga til næstu fimm ára á milli landshlutasamtaka sveitarfélaga og þriggja ráðuneyta. Ráðherrarnir Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mættu til undirritunarinnar fyrir hönd sinna ráðuneyta og fyrir hönd Vestfjarðastofu, sem sinnir framkvæmd Sóknaráætlunarsamningsins við Vestfirði fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga, mættu Sigríður Kristjánsdóttir og Gylfi Ólafsson.

Framlög ríkisins til samninganna árið 2025 nema samtals 865,7 milljónum króna og framlög sveitarfélaga samtals 93,9 milljónum króna. Alls nema heildarframlög ríkis og sveitarfélaga til sóknaráætlana því um 960 milljónum kr. Skipting á milli framlaga frá ráðuneytunum er að inn í samninginn kemur 552,1 m.kr. frá innviðaráðuneytinu, 223,6 m.kr. frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og 90 m.kr. frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Heimilt er að semja um framlög annarra aðila að samningnum.

Markmiðið með sóknaráætlunum er að stuðla að jákvæðri og sjálfbærri byggðaþróun, treysta stoðir menningar, efla atvinnulíf og nýsköpun, styðja við áherslur um umhverfis- og loftslagsmál og auka þannig samkeppnishæfni landshluta og þar með landsins alls. Þá er markmiðið einnig að efla samráð hjá stjórnvöldum og milli landshluta og tryggja gagnsæi við úthlutun opinberra fjármuna.

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem fela í sér stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Markmiðið er að ráðstöfun fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags-, umhverfis- og byggðamála byggi á áherslum heimafólks.

Forsögu sóknaráætlana má rekja allt aftur til ársins 2011 þegar hugmyndafræðin var fyrst mótuð og sett fram í stefnuyfirlýsingunni Ísland 2020 og voru fyrstu samningar um sóknaráætlanir landshluta voru gerðir árið 2013. Verklag sóknaráætlana hefur reynst vel og almenn ánægja er með það, bæði meðal ríkis og sveitarfélaga. Samningarnir eru gerðir á grundvelli sveitarstjórnarlaga og gilda í fimm ár í senn.

Fréttin byggir á frétt Stjórnarráðsins um undirritunina