Fara í efni

Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029 komin út

Fréttir Sóknaráætlun Vestfjarða

Ný Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029 hefur verið samþykkt af stjórn Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga og er hún komin á vefinn. Sóknaráætlunin er byggðaáætlun fyrir Vestfirði sem byggir á mati íbúa svæðisins á því hvernig svæðið eigi að þróast næstu fimm ár og felur í sér stöðumat, framtíðarsýn og markmið. Landshlutasamtök sveitarfélaganna sjá um umsýslu og framkvæmd sóknaráætlana í hverjum landshluta en fjárveitingar koma frá innviðaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti og umhverfis-, orku og loftslagsráðuneyti. Undir Sóknaráætlun er annars vegar Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og hins vegar Áhersluverkefni sem skilgreind eru til allt að þriggja ára í senn.

Mikil vinna hefur verið lögð í þessa nýju sóknaráætlun undanfarið starfsár, í mörg horn verið litið og fjölmargir kallaðir að borðinu. Við gerð Sóknaráætlunar Vestfjarða 2025-2029 hófst samráð með spurningakönnun til styrkþega Uppbyggingarsjóðs og til kjörinna fulltrúa, stjórnar Vestfjarðastofu og Sóknarhóps. Haldnir voru fjórir opnir íbúafundir á öllum þremur svæðum Vestfjarða til að móta og forgangsraða áherslum og einn að auki með starfsfólki sveitarfélaga við Djúp. Á Ungmennaþingi vorið 2024 var vinnustofa þar sem unga fólkið fékk tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og til að ná örugglega að fanga raddir sem flestra var fjórum öðrum hópum boðið að taka þátt í fókusfundum.

Þegar búið var að greina helstu niðurstöður samráðsins voru þær bornar undir samráðsvettvang Sóknaráætlunar á úrvinnslufundi. Í framhaldi af því voru drög þessarar ágætu áætlunar unnin og þau birt í Samráðsgátt stjórnvalda. Þau voru jafnframt kynnt á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í haust.

Þátttaka í samráðinu var framar vonum og samanlagt má áætla að um 450 manns hafi lagt sitt af mörkum við mótun Sóknaráætlunar 2025-2029. Það er ekki bara hið fornkveðna að margar hendur vinni létt verk, heldur er það svo að eftir því sem fleiri leggja sitt af mörkum verður eignarhald yfir afurðinni víðara. Takk öll fyrir framlagið.