Fara í efni

Spennandi fundir um þróun í ferðaþjónustu á Vestfjörðum

Fréttir Áfangastaðaáætlun Vestfjarða Markaðsstofa Vestfjarða
Frá fundi um vetrarferðaþjónustu á Dokkunni
Frá fundi um vetrarferðaþjónustu á Dokkunni

Markaðsstofa Vestfjarða er á faraldsfæti þessa dagana. Fimmtudaginn 3. apríl voru haldnir tveir samliggjandi fundi á Dokkunni á Ísafirði og þriðjudaginn 8. apríl var haldið á Patreksfjörð. Umræðuefnin voru uppbygging vetrarferðaþjónustu annars vegar og gerð nýrrar áfangastaðaáætlunar Vestfjarða hins vegar.

Á Dokkunni var byrjað á vinnustofu sem var sniðin að aðilum markaðsstofunnar til að þróa vörur í vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum. Þar komu saman hin ýmsu fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu og lögðu fram hugmyndir um hentuga ferðapakka sem hægt er að selja til erlendra ferðaskrifstofa. Einnig var farið yfir þá ýmsu kosti sem fylgja því að setja saman slíka pakka til að selja erlendum ferðaskrifstofum til að styrkja stoðir ferðaþjónustunnar utan háannatíma og tækifærin sem í því felast, til að mynda með norðurljósaskoðunum, vetrarsporti og öðrum spennandi hugmyndum um afþreyingu. Vinnustofan er hluti af verkefni um eflingu vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum sem markaðsstofan hlaut styrk fyrir til tveggja ára frá ráðherra ferðamála.

Bæði á Dokkunni og á Skútanum á Patreksfirði var haldinn opinn fundur um gerð nýrrar áfangastaðaáætlunar Vestfjarða, þar sem ferðaþjónum og íbúum var gefinn kostur á að koma að mótun framtíðarstefnu í ferðamálum á Vestfjörðum Markmið áfangastaðaáætlunar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu sem skilar sem mestu til samfélagsins um leið og mögulegum neikvæðum áhrifum er haldið í lágmarki. Áætlunin tekur tillit til gesta, íbúa, fyrirtækja og umhverfis og reynir að skapa jafnvægi. Hún auðveldar íbúum að hafa áhrif á hvernig ferðaþjónustan þróast og hvaða skref skuli taka. Þannig eru meiri líkur á að uppbyggingin hafi jákvæð áhrif á efnahag og samfélag. María Hjálmarsdóttir, sem sérhæfir sig í ráðgjöf á þessu sviði, stýrði fundinum á Ísafirði og er til ráðgjafar við vinnslu áætlunarinnar.

Góð þátttaka var á þessum fundum og þökkum við þátttakendum fyrir frábært framlag. Á Patreksfirði átti einnig að fara fram sambærilegur fundur um vetrarferðaþjónustu en vegna skorts á þátttakendum verður gerð önnur atlaga að þeim fundi síðar, og hringnum verður svo lokað á Galdrasýningunni á Hólmavík þann 9. maí.