Fara í efni

Staða vestfirskra framleiðenda á tímum Cóvit

Fréttir
Ísafjörður
Ísafjörður

Föstudaginn 24. apríl var haldinn fundur um stöðuna hjá framleiðslufyrirtækjum á Vestfjörðum og þar mættu rúmlega 30 fulltrúar fyrirtækja og ræddu málin í fjarfundi.

Markmið fundarins var að fara yfir stöðuna og meta hvernig aðgerðir stjórnvalda eru að nýtast fyrirtækjum á Vestfjörðum og hvernig  aðgerðir myndu koma að mestu gagni.

Það ríkir mikil óvissa hjá öllum en í framleiðslugreinum er óljóst hvenær eftirspurnin fari aftur að aukast og verð fyrir afurðir að hækka.

Það er mat fundarmanna að sú leið sem mun nýtast fyrirtækjum sem eru í rekstri best eru beinar aðgerðir í gegnum skattkerfið eða stjórnsýsluna.

  1. Lækka vexti á lánum til fyrirtækja, jafnvel í 0%.
  2. Lækka/afnema tryggingargjaldið
  3. Lækka veiðigjaldið og miða greiðslu þess við söludaginn ekki löndunardaginn þar sem ljóst er að vörur munu verða lengur á lager.
  4. Lækka kolefnisgjaldið og jafna flutningskostnað við aðra landshluta.
  5. Veita fiskvinnslufyrirtækjum heimild til að flytja meiri kvóta yfir á nýtt fiskveiðiár sem hefst 1. september 2020.
  6. Í stað þess að miða skatta í fiskeldi við útgáfu leyfa, miða við lífmassa eða framleiðsluna.
  7. Það virðist vera nóg að gera hjá iðnaðarmönnum og þar er endurgreiðsla á VSK að skila sér, er hægt að yfirfæra ‏það á einhvern hátt?
  8. Tryggja þarf að þjónusta sveitarfélaganna eins og að leikskólar komi til móts við þessar aðstæður og sumarlokanir verði endurskoðaðar.
  9. Hlutabótaleiðin er þannig útfærð að það er útilokað fyrir fiskvinnslur að nýta slíka leið.
  10. Aðgerðir stjórnvalda beinast lítið að sjávarútveginum og framleiðslufyrirtækin geta lítið nýtt sér þessar aðgerðir.
  11. Mikilvægast fyrir fyrirtækin er að ríkisstjórnin fari í mannfrekar framkvæmdir sem byggja upp innviði.  Samgöngur – Rafmagn – Nettenging.

Í stuttu máli myndi það hjálpa starfandi fyrirtækjum mest að lækka vexti, skatta og liðka til með viðmiðunartíma greiðslna og þá kæmi stuðningurinn beint inn í reksturinn og sem hlutfall af umsvifum fyrirtækjana.