Fara í efni

Staðfesting nýtingaráætlunar strandsvæðis Arnarfjarðar.

Fréttir
Frá vinstri Daníel Jakobsson, Ásthildur Sturludóttir og Indriði Indriðason
Frá vinstri Daníel Jakobsson, Ásthildur Sturludóttir og Indriði Indriðason

Fjölmenni var við athöfn þegar bæjarstjórar og sveitastjóri Ísafjarðarbæjar, Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps staðfestu „nýtingaráætlun strandsvæðis Arnarfjarðar“ með undirritun sinni  þann 27. febrúar í Félagsheimilinu Baldurshaga á Bíldudal. Viðeigandi þótti  að setja þennan formlega endi á verkefnið en það var hafið á sama stað með málþingi í nóvember 2010.

 

Flutt voru ávörp og stutt erindi við athöfnina en þau fluttu;

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar

Sigurður Pétursson forstjóri Dýrfisk

Ása Dóra Finnbogadóttir íbúasamtök Bíldudals:

Gunnar Páll Eydal, sérfræðingur, Teiknistofunni Eik 

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar

Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

Indriði Indriðason  sveitastjóri Tálknafjarðarhrepps.

 

Fundarstjóri var Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambandsins.

 

Eftir athöfnina var Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur forstjóra Skipulagsstofnunar afhent fyrsta rafræna eintakið af skipulagsáætlun fyrir nýtingu strandsvæðis Arnarfjarðar, sem stofnunin mun varðveita hjá sér.

 

Í máli umhverfis og auðlindarráðherra kom fram að hann væri mjög fylgjandi gerð haf og strandsvæðaskipulags við Ísland. Hann fagnaði því frumkvæði sem vestfirsk sveitarfélög hefðu sýnt í þessu máli og verkefnið í Arnarfirði væri fyrirmynd sem yrði nýtt við vinnu sem nú hefði verið sett af stað. Þar vísaði ráðherra til að haf og strandsvæðaskipulag væri einn fjögurra málaflokka sem landsskipulagsstefna 2015-2026 ætti að fjalla um, en undirbúningur stefnunnar er nú hafin. Einnig kom fram að á grundvelli nýrrar skýrslu Skiplagsstofnunar „Um skipulag haf – og strandsvæða. Löggjöf, lykilhugtök og stjórntæki.“ yrði sett á laggirnar nefnd til að undirbúa frumvarp til laga um haf og strandsvæðaskipulag. Einnig vísaði ráðherra til að dreift hefði verið á Alþingi frumvarpi um breytingar á lögum um fiskeldi þar sem stefnt væri á einföldun í úthlutu eldisleyfa auk annarra þátta.

 

Meginmarkmið verkefnisins er að samræma stjórnun og nýtingu svæðisins í samvinnu við sveitastjórnir, hagsmunaaðila og íbúa. Með verkefninu eru þátttakendur að staðfesta vilja sinn að vinna í samræmi við skipulagsáætlun. Með þessu verklagi er horft til framtíðar og stuðlað að sjálfbærri nýtingu og verndun strandsvæðisins til hagsbóta fyrir samfélag, efnahagslíf og umhverfi.

 

Nýtingaráætlunin er ekki lögbundin en nú hafa stjórnvöld tekið ákvörðun að stefna í þá átt. En áætlunin er hugsuð sem leiðarljós sem nýta á við ákvarðanatöku á strandsvæðinu og auka skilvirkni stjórnsýslum, t.d við gerð umsagna um leyfisveitingar. Sveitastjórnir hafa takmarkaða aðkomu að ákvarðanatöku um nýtingu á strandsvæðinu. Strandsvæðaskipulagið er hugsað sem verkfæri sem tryggja á sjálfsákvörðunarrétt sveitafélaga um nýtingu strandsvæðisins en leyfisveitingar verða eftir sem áður í höndum opinberra aðila í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir. Áætluninni er einnig ætlað að auka samkeppnishæfni svæðisins og stuðla að því að auðlindir verði nýttar á fjölbreyttan og sjálfbæran hátt með áherslu á langtímahagsmuni við verðmætasköpun, verndun lífríkis og umhverfis. Nýtingaráætlun Arnarfjarðar er fyrsta verkefni sinnar tegundar sem unnið er á Íslandi. Í framhaldi af þessu verkefni var haldið af stað með gerð nýtingaráætlun strandsvæða Ísafjarðardjúps og Jökulfjarða en það verkefni liggur nú í dvala á meðan verið er að reyna að fjármagna verkefnið.