Hafsjór af hugmyndum úthlutaði á dögunum styrkjum til háskólanema vegna lokaverkefnagerðar. Þetta er í fjórða sinn sem styrkur er veittur og bárust margar spennandi umsóknir. Fjögur verkefni hlutu styrk að þessu sinni og koma nemarnir frá Háskólasetri Vestfjarða og Háskóla Íslands.
Verkefnin spanna vítt svið. Orla Mallon, nemi við Háskólasetur Vestfjarða, fékk 700.000 króna styrk til að setja upp lítið fiskeldi og gróðurhús þar sem nemar og almenningur getur fylgst með og lært hvernig lífskeðjan virkar. Alexis Jane Bradley við sama skóla hlaut einnig 700.000 kr. styrk vegna rannsóknar á dreifingu og hugsanlegri nýtingu grjótkrabba sem er tegund sem er að færa sig upp á skaftið í kringum landið. Fia Finn fékk 600.000 vegna rannsóknar á búsvæðum þorskseiða og verndunar þeirra. Svavar Konráðsson við Háskóla Íslands hlaut 500.000 kr. vegna þróunar á nýjum sætum sem miða að því að taka högg af sjófarendum á smærri bátum eins og strandveiðibátum.
Að baki Hafsjós af hugmyndum stendur Sjávarútvegsklasi Vestfjarða sem að auki styrknum leggur nemunum til aðstöðu, hráefni og þekkingu hjá fyrirtækjunum. Beinu fjármagni er svo ætlað að framkvæma ítarlegri rannsóknir sem stuðla að nýsköpun og eflingu sjávarútvegs á Vestfjörðum.
Við óskum þeim sem hlutu styrk til hamingju og erum spennt að sjá niðurstöður rannsóknanna á næsta ári.