Fara í efni

Styttist í Act alone leiklistarhátíðina á Ísafirði

Fréttir
Kinki skemmtikraftur að sunnan
Kinki skemmtikraftur að sunnan

Hulunni hefur nú verið svipt af dagskrá Act alone 2008 og má nálgast hana á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net. Það eru engar ýkjur að segja að dagskráin hafi aldrei verið jafn glæsileg og í ár. Boðið verður uppá 24 sýningar, leiklistarnámskeið og kennslustund í að reka eins manns leikhús. Að vanda er aðgangur að Act alone ókeypis eins og verið hefur frá upphafi en þetta er fimmta árið í röð sem Act alone er haldin.

Meðal þess sem boðið verður uppá á Act alone 2008 eru þrjú erlend leikverk sem koma frá jafnmörgum löndum. Fyrst ber að nefna sýninguna Völuspá frá Rússlandi en hér er á ferðinni athygliverð sýning byggð á einu besta bókmenntaverki þjóðarinnar. Frá Tékklandi fáum við sýninguna Fragile og frá Búlgaríu kemur verðlaunasýningin Chick with a trick. Að vanda er uppistaðan í dagskrá Act alone innlendar sýningar og hafa þær aldrei verið jafn margar og í ár eða 21. Má þar nefna sýningar á borð við Aðventa, Álfar tröll og ósköpin öll, Eldfærin, Kinki skemmtikraftur að sunnan, Pétur og Einar, Superhero og Örvænting.

Fjölmargar nýjungar verða á Act alone 2008 því nú verður ekki bara leikið heldur líka dansað og sungið. Boðið verður uppá þrjár einleiknar danssýningar. Saga Sigurðardóttir flytur dansverkið Blúskonan einleikinn blúsverkur og dansleikhúsið Pars pro toto sýnir leikina Jói og Langbrók. Act alone verður ekki bara einleikin því einnig verða sýndir tveir tvíleikir sem báðir eru byggðir á verkum íslenskra skálda. Sigurður Skúlason, leikari, verður með leiklistarnámskeið og Benóný Ægisson með kennslustund í að reka eins manns leikhús. 

Í fyrsta sinn verður sérstök dómnefnd starfandi á Act alone sem hefur það hlutverk að velja bestu sýningu hátíðarinnar og besta leikarann. Dómnefndin er skipuð þremur áhorfendum á Ísafirði og mun nefndin afhenda verðlaunin á lokadegi hátíðarinnar í Haukadal í Dýrafirði strax að lokinni síðustu sýningu Act alone 2008. Það er listakonan Marsibil G. Kristjánsdóttir sem hannar og gerir Act alone verðlaunagripinnn en hún hannar einnig Act alone plakatið í ár.

Það ætti því engum að þurfa að leiðast á Act alone 2008 og nú er bara að fara að pakka niður í ferðatösku og skella sér í einleikjabæinn Ísafjörð.